Hoppa yfir valmynd
Túngumál EN
Heim

Smellið á plúsinn eða spurningarnar hér fyrir neðan til að fá svör


Hef ég rétt til aðgangs að upplýsingum um mig?

Í lögunum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga er m.a. kveðið á um almennan upplýsingarétt hins skráða (sbr. 18. gr. laganna) og þær takmarkanir sem kunna að vera á þeim upplýsingarétti (sbr. 19. gr. laganna), en Persónuvernd fer með eftirlit með lögunum. Sjá má nánari upplýsingar um hlutverk Persónuverndar og gildissvið persónuverndarlaga á heimasíðu stofnunarinnar www.personuvernd.is.

Hvaða upplýsingar eru varðveittar?

Gögn um fjarskipti, samkvæmt orðalagi 42. gr. fjarskiptalaga, kallast upplýsingar um fjarskiptaumferð. Almennt séð má segja að þetta séu þær tengiupplýsingar sem verða til í fjarskiptaneti og greiðslukerfum fjarskiptafyrirtækja vegna fjarskiptanotkunar viðskiptavina og liggja til grundvallar gjaldfærslu fyrir þjónustuna. Dæmi um slíkt er upplýsingar um númer sem hringir í annað númer, tímasetning símtalsins og hversu lengi það stóð yfir. Innan þessa mengis tengiupplýsinga falla þær upplýsingar sem taldar eru til gjaldfærsluupplýsinga, en þær eru eðli málsins samkvæmt persónugreinanlegar þar sem reikningar eru gefnir út á nafn og kennitölu einstaklinga og fyrirtækja, nema að um sé að ræða frelsisþjónustu.

Varðandi svokallaða lágmarksskráningu gagna um fjarskiptaumferð þá á slík lágmarksskráning að tryggja að að fjarskiptafyrirtæki geti upplýst hver af viðskiptavinum þess var notandi tiltekins símanúmers, IP-tölu eða notandanafns. Einnig á sú skráning að upplýsa um allar tengingar sem notandinn hefur gert, dagsetningar þeirra, hverjum var tengst og magn gagnaflutnings til viðkomandi notanda. Fjarskiptafyrirtækjum ber lögum samkvæmt að tryggja vörslu framangreindra gagna og er óheimilt að nota eða afhenda umræddar upplýsingar öðrum en lögreglu eða ákæruvaldi í samræmi við 47. grein fjarskiptalaga. Eyða ber umferðargögnunum að sex mánuðum liðnum, nema þörf sé fyrir þau á grundvelli 2. mgr. 42. gr. laganna.

Í lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga er hugtakið persónuupplýsingar skilgreint svo: "Sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi." Er þannig ljóst að upplýsingar um fjarskiptaumferð og fjarskiptanotkun sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings teljast til persónuupplýsinga í skilningi laganna.

Hversu lengi má varðveita persónuupplýsingar í fjarskiptum?

Samkvæmt 42. grein fjarskiptalaga er meginreglan sú að gögnum um fjarskiptaumferð notenda skal eyða eða gera ópersónugreinanleg þegar þeirra er ekki lengur þörf og fjarskiptasendingunni hefur verið komið til skila. Undantekningar frá þessu eru annars vegar þær að gögn vegna reikningsgerðar má geyma þar til að ekki er hægt að vefengja reikning eða hann fyrnist og hins vegar er kveðið á um að varðveita skuli lágmarksskráningu gagna um fjarskiptaumferð notenda í 6 mánuði í þágu rannsókna opinberra mála. Að þessum 6 mánuðum liðnum ber fjarskiptafyrirtækinu þó að eyða upplýsingunum, ef þeirra er ekki lengur þörf. Undantekningarákvæði sem þessi ber þó ávallt að túlka þröngt, sem frávik frá hinni almennu reglu.

Hversu mikilvæg eru lykilorðin mín?

Lykilorðin eru eitt mikilvægasta öryggistækið sem þú hefur yfir að ráða.

Skiptu reglulega um lykilorð.
Í framhaldi af nýlegri netárás á Vodafone og tilraunum til innbrota á aðra innlenda vefi ættu allir að nota tækifærið og skipta um lykilorð sín á sem flestum stöðum.

Hafðu eftirfarandi atriði í huga þegar þú býrð til ný lykilorð.

Kröfur til lykilorða:
  • Nota lágmark 8 stafi
  • Nota a.m.k. 3 af 4 möguleikum um hástafi, lágstafi, tölustafi og tákn

Reyna að dreifa stöfunum á hnappaborðið þannig að erfiðara sé að átta sig fyrir þann sem á horfir

Það sem á ekki að gera:

  • Ekki stafa algeng orð afturábak óbreytt
  • Ekki nota nafnið þitt eða hluta úr nafninu
  • Ekki velja algeng/venjuleg orð, t.d. bolli, mynd, vetur o.s.frv
  • Ekki nota óbreyttar upplýsingar er tengjast þér, svo sem símanúmer, kennitölu o.s.frv.
  • Ekki nota talna eða stafarunur eins og 123456, né takkaraðir á hnappaborðinu t.d. qwerty

Kynntu þér fleiri góð ráð um lykilorð á vefnum Netöryggi.is

Hvert á ég að leita ef viðkvæmar upplýsingar um mig eru á netinu?

Póst- og fjarskiptastofnun tekur á móti kvörtunum sem varða meint brot á hámarks varðveislutíma fjarskiptaumferðagagna miðað við 42. gr. fjarskiptalaga og hvort að fullnægjandi öryggis hafi verið gætt við meðferð þeirra og varðveislu. Fjarskiptalög gilda hins vegar almennt ekki um efni fjarskiptasendinga. Póst- og fjarskiptastofnun sker þar af leiðandi ekki úr um t.d. mörk tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs, s.s. í málum er varða meiðyrði, birtingu á einkamálefnum fólks o.s.frv. Heyra slík málefni undir dómstóla.

Ef persónugreinanlegar upplýsingar hafa verið birtar um þig af þriðja aðila er best að hafa samband við lögreglu.

Má birta persónuupplýsingar um mig á netinu?

Birting þriðja aðila á persónugreinanlegum upplýsingum án samþykkis er að öllu jöfnu óheimil þótt á því kunni að finnast undantekningar, t.d. opinberar birtingar á dómum samkvæmt lögum um meðferð sakamála og sérstökum reglum sem settar hafa verið um slíkt.

Varðandi persónuupplýsingar þá kveða lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga ítarlega á um þær reglur sem gilda um meðferð og vinnslu slíkra upplýsinga. Þetta á t.d. við um hvort upplýsingar teljist viðkvæmar persónuupplýsingar og hvort þörf sé á að afla samþykkis fyrir vinnslu þeirra, t.d. opinbera birtingu þeirra, svo dæmi séu tekin. Brot á ákvæðum persónuverndarlaganna og tengdum reglum geta varðað fésektum eða fangelsi allt að þremur árum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Sama refsing liggur við ef ekki er farið að fyrirmælum Persónuverndar sbr. 42. gr. laganna.

Í 25. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er kveðið á um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs.Brot gegn ákvæðum þessa kafla geta varðað við sektir eða fangelsi. Í lögunum (229 grein) er t.d. skýrt kveðið á um að hver sem skýrir opinberlega frá einkamálefnum annars manns, án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi er réttlæti verknaðinn, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábending þín er móttekin

Af hverju ekki?