Póst og fjarskiptastofnun

Túngumál EN
Heim

Jöfnunarsjóður alþjónustu - umsóknir

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hafa borist umsóknir frá Mílu hf. um framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu vegna lagningar ljósleiðara á tveimur svæðum. Grundvallast umsóknirnar á ákvörðun PFS nr. 40/2014.

Annars vegar er um að ræða lagningu ljósleiðara í Fljótum og Flókadal/Haganesvík og hins vegar lagningu ljósleiðara í Húnaþingi vestra.

PFS auglýsir eftir mögulegum áhuga annarra aðila á því að byggja upp og reka ljósleiðaranet á viðkomandi svæðum með sömu skyldum og hvíla á alþjónustuveitanda. Skulu slíkir aðilar uppfylla eftirtalin skilyrði:

a) Hafa tilkynnt PFS um fjarskiptastarfsemi.
b) Hafa haldgóða reynslu af byggingu og rekstri ljósleiðarakerfa.
c) Leggi fram raunhæfa áætlun um framkvæmd verksins, með upplýsingum um hvernig verkið verði unnið, verkáætlun og tæknilegri högun ljósleiðarkerfisins.

Áhugasamir aðilar skulu senda svar til PFS á netfangið gudmunda(hjá)pfs.is fyrir kl. 12:00 þann 21.11.2015. Í svarinu skal koma fram nafn og kennitala aðila, auk upplýsinga um ofangreint eftir því sem við á.

Sjá nánari upplýsingar um framkvæmdirnar sem um ræðir hér fyrir neðan.


Lagning ljósleiðara í Fljótum og Flókadal/Haganesvík

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur borist umsókn frá Mílu hf. um framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu vegna lagningu ljósleiðara frá símstöðinni í Ketilási í Fljótum (fyrri áfangi) og í Flókadal við Haganesvík og í Norður-Fljótum (síðari áfangi), á grundvelli ákvörðunar PFS nr. 40/2014.

Lýsing á framkvæmdinni

Framkvæmdin skiptist í tvo áfanga og er í samvinnu við Skagafjarðarveitur. Í henni felst lagning ljósleiðara í Fljótum að öllum lögheimilum, lögbýlum og annarri atvinnustarfsemi innan sveitarinnar sem hitaveita er lögð til. Í fyrri áfanga framkvæmdarinnar felst lagning ljósleiðarakerfis að 27 tengistöðum, heimilum og fyrirtækjum, í Fljótum, samhliða hitaveitulögn á vegum sveitarfélagsins á árinu 2015. Í seinni áfanga framkvæmdarinnar felst lagning ljósleiðarakerfis að 20 tengistöðum, heimilum og fyrirtækjum í Flókadal við Haganesvík og í Norður-Fljótum en áætluð verklok áfanga 2 eru á árinu 2016.
Umrædd framkvæmd gerir þó ekki ráð fyrir að ljósleiðari verði lagður til allra bæja, þótt síðar kunni að verða en um er að ræða bæi þar sem hitaveita verður ekki lögð eða er þegar til staðar. Þannig verður ekki lagður ljósleiðari að Ökrum 1, Ökrum 2, Barði, tveimur húsum á Minni-Reykjum, Stóru-Reykjum, fjögurra húsa að Sólgörðum (tvö skólahús, íbúðarhús og sundlaug).

Nánari upplýsingar um fyrirhugaða lagnaleið má sjá á þessari yfirlitsmynd

Heildarkílómetralengd ljósleiðaraheimtauganetsins, þ.m.t. nauðsynlegir stofnnetshlutar (til viðbótar við þá sem eru fyrirliggjandi) er 46.120 km. Áætluð heildarverklok eru á árinu 2016.
Við framkvæmdina hyggst Míla leggja til 250.000 kr. fyrir hverja heimtaug til viðbótar við 250.000 kr. framlag notanda/sveitarfélags. Umsókn Mílu tekur því til endurgjalds úr jöfnunarsjóði alþjónustu sem nemur þeim kostnaði sem er umfram 500.000 kr. framlag fyrrgreindra aðila, á hverja heimtaug.


Lagning ljósleiðara í Húnaþingi vestra

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur borist umsókn frá Mílu hf. um framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu vegna lagningu ljósleiðara í Húnaþingi vestra á grundvelli ákvörðunar PFS nr. 40/2014.

Lýsing á framkvæmdinni

Í framkvæmdinni felst lagning ljósleiðarakerfis að 72 tengistöðum, heimilum og fyrirtækjum, í Húnaþingi vestra, samhliða hitaveitulögn á vegum sveitarfélagsins. Umrædd framkvæmd gerir þó ekki ráð fyrir að ljósleiðari verði lagður til allra bæja, þótt síðar kunni að verða. Í Miðfirði verður t.d. ekki lagður ljósleiðari að Skárastöðum, Dalgeirsstöðum og Húki svo eitthvað sé nefnt. Míla ráðgerir því að viðhalda koparkerfi sínu þar til lagður verður ljósleiðari eða önnur viðeigandi lausn fundin til að þjónusta viðkomandi bæi.

Nánari upplýsingar um fyrirhugaða lagnaleið má sjá á þessari yfirlitsmynd

Heildarkílómetralengd ljósleiðaraheimtauganetsins í Húnaþingi vestra, þ.m.t. nauðsynlegir stofnnetshlutar (til viðbótar við þá sem eru fyrirliggjandi) er 89.767 km. Áætluð verklok eru á árinu 2016.
Við framkvæmdina hyggst Míla leggja til 250.000 kr. fyrir hverja heimtaug til viðbótar við 250.000 kr. framlag notanda/sveitarfélags. Umsókn Mílu tekur því til endurgjalds úr jöfnunarsjóði alþjónustu sem nemur þeim kostnaði sem er umfram 500.000 kr. framlag fyrrgreindra aðila, á hverja heimtaug.


 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábending þín er móttekin

Afhverju ekki?