Ákvörðun PFS nr. 17/2014
23. júlí 2014
Með ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 17/2014 samþykkir stofnunin kostnaðargreiningu Mílu ehf. á verðskrá fyrir bitastraumsaðgang samkvæmt aðgangsleiðum 1 og 3 með tilteknum breytingum. Hin nýju verð eru tilgreind í viðauka I og munu þau taka gildi frá og með 1. ágúst nk.Kostnaðargreiningin kemur í kjölfar ákvörðunar PFS nr. 38/2012 um aðgangsleið 1 sem byggir á ákvörðun PFS nr. 8/2008 um útnefningu fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumarkaði fyrir breiðbandsaðgang. Í samræmi við ákvörðun PFS nr. 38/2012 skal endanlegt uppgjör milli aðila vegna mismunar á bráðabirgðaverðum skv. ákvörðun nr. 38/2012 og þeim verðum sem tilgreind eru í viðauka I fara fram innan mánaðar frá birtingu þessarar ákvörðunar.
Það er niðurstaða PFS að ekki skuli gerður greinarmunur á verði fyrir ADSL og VDSL þjónustu í aðgangsleiðum 1 og 3. Mánaðarverð fyrir aðgangsleið 1 verður 912 kr. en mánaðarverð aðgangsleiðar 3 verður 1.367 kr. Samanborið við núverandi bráðabirgðaverð þá helst verðið á ADSL tengingu samkvæmt aðgangsleið 1 nánast óbreytt en verð fyrir VDSL tengingu samkvæmt aðgangsleið 1 lækkar um tæp 17%. Við samræmingu gjaldskrár fyrir ADSL og VDSL þjónustu lækkar verðið á ADSL tengingu samkvæmt aðgangsleið 3 á meðan verðið á VDSL tengingu samkvæmt aðgangsleið 3 hækkar.
Í framangreindri kostnaðargreiningu Mílu ehf. voru jafnframt reiknuð verð fyrir sjónvarpsþjónustu (e. multicast), VoIP þjónustu og aðgang að heildsöluskipti í aðgangsleið 1. Hina nýju gjaldskrá má finna í heild sinni í Viðauka I í ákvörðun PFS.
Álit Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) við ákvörðunardrögin bárust þann 21. júlí sl. ESA gerði nokkrar athugasemdir við ákvörðunardrögin og þær má sjá í Viðauka 5.
Á næstu dögum hyggst PFS einnig taka ákvörðun um fyrirhugaðar breytingar á viðmiðunartilboði Mílu um bitastraumsaðgang, m.a. að því er varðar skilmála fyrir notkun ofangreindra heildsöluskipta. Þá hyggst PFS taka ákvörðun í ágúst nk. um markaðsgreiningu á heildsölumarkaði fyrir bitastraumsaðgang (markaður 5). Þar hyggst PFS mæla fyrir um að Míla afhendi PFS nýja heildræna kostnaðargreiningu á bitastraumsþjónustu sinni innan 6 mánaða frá birtingu ákvörðunar. Því má búast við því að endurskoðuð verð á bitastraumsþjónustu Mílu líti dagsins ljós á fyrri hluta næsta árs.
Ákvörðun PFS nr. 17/2014 og viðaukar á íslensku og ensku
Íslenska:
Viðauki I - Heildsöluverð fyrir bitastraumsaðgang
Viðauki II - Niðurstöður úr samráði
Viðauki III - Aukasamráðsskjal frá febrúar 2014
Enska:
Appendix I - Wholesale prices for bitstream Access Option 1 and 3
Appendix II - Conclusions of PTA´s consultation
Appendix III - Additional consultation from February 2014
Appendix IV - Conclusions of the additional PTA consultation