Ákvörðun PFS nr. 32/2015
22. desember 2015
Með ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 32/2015 samþykkir stofnunin nýja heildsölugjaldskrá Mílu fyrir Hraðbrautir á heildsölumarkaði fyrir stofnlínuhluta leigulína.
Ákvörðunin kemur í stað ákvörðunar PFS nr. 24/2015 varðandi endurskoðun á gjaldskrá Mílu fyrir Hraðbrautarsambönd, en sú gjaldskrá tók gildi 1. október sl.
Niðurstaða kostnaðargreiningar á Hraðbrautarsamböndum er að leigugjald fyrir 1 Gb/s haldist óbreytt 95 þús. kr. á mánuði, en leigugjald fyrir 10 Gb/s lækki úr 160 þúsund kr. í 120 þúsund kr. á mánuði. Stofngjald fyrir Hraðbrautarsamband helst óbreytt, 107 þús. kr. á tengingu.
Þá hyggst Míla bjóða 100 Gb/s Hraðbrautarsambönd á tilteknum leiðum. Samkvæmt niðurstöðu úr kostnaðargreiningu Mílu verður leigugjald fyrir 100 Gb/s Hraðbrautarsambönd 655 þúsund kr. á mánuði.
Hraðbrautir eru leigulínusambönd. Mánaðarverð Hraðbrautarsambanda eru föst og óháð vegalengdum en þau hafa verið í boði hjá Mílu á stöðum innan höfuðborgarsvæðisins og á Suðurnesjum.
Á tímabilinu 19. október til 9. nóvember 2015 fór fram innanlandssamráð um umræddar breytingar á gjaldskrá Mílu. Engar athugasemdir bárust. Drög að ákvörðuninni, voru send ESA og öðrum eftirlitsstofnunum á EES-svæðinu til samráðs þann 23. nóvember, sbr. ákvæði 1. mgr. 7. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun, og 7. gr. rammatilskipunar ESB. Þann 21. desember 2015 barst álit ESA og fylgir það með í fylgiskjali I.