Hoppa yfir valmynd
Túngumál EN
Heim

Markaðir 2,3 og 10 - Ákvarðanir 36/2012 og 37/2012

 14. desember 2012

 PFS mælir fyrir um jöfnun lúkningarverða á talsímamörkuðum

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvarðanir sínar nr. 36/2012 og 37/2012. Fyrri ákvörðunin varðar heildsölumarkaði fyrir upphaf og lúkningu símtala í talsímanetum (markaðir 2 og 3 skv. tilmælum ESA frá 2008). Seinni ákvörðunin varðar heildsölumarkað fyrir flutning símtala í talsímanetum (markaður 10 skv. eldri tilmælum ESA frá 2004). Umræddir markaðir voru áður greindir með ákvörðun PFS nr. 29/2008 frá 4. desember 2008. Þar var niðurstaðan sú að Síminn nyti umtalsverðs markaðsstyrks á öllum mörkuðunum og voru viðeigandi kvaðir lagðar á félagið sem ætlað var að efla samkeppni. Þá var Vodafone einnig útnefnt sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á lúkningarmarkaðinum og var m.a. gert að lækka og jafna lúkningarverð sín til jafns við verð Símans, í þrepum til 4. desember 2012.

Heildsölumarkaður fyrir upphaf símtala - Síminn með umtalsverðan markaðsstyrk
Niðurstaða PFS varðandi markað 2 er sú að Síminn njóti ennþá umtalsverðs markaðsstyrks á heildsölumarkaði fyrir upphaf símtala í talsímanetum. Því hyggst PFS viðhalda kvöðum á félagið á þeim markaði. Helsta breytingin á kvöðunum er sú að heildsöluverð félagsins skulu ráðast af verðsamanburði við ríki á EES-svæðinu sem beita tiltekinni kostnaðargreiningaraðferð við ákvörðun verða í stað þess að byggja á kostnaðargreiningu Símans eins og áður var gert.

Lúkning símtala í eigin talsímanetum - hámarksverð verði hið sama hjá öllum fyrirtækjum frá 1. mars nk.

Fimm fyrirtæki eru nú útnefnd sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk vegna lúkningar símtala í eigin talsímanetum.
Um er að ræða Símann, Vodafone, Nova, Símafélagið og Hringdu. Viðeigandi kvaðir eru lagðar á félögin m.a. varðandi hámarksverð fyrir lúkningarþjónustu. Frá 4. desember 2012 hafa lúkningarverð Símans og Vodafone verið jöfn í 0,63 kr./mín. og 0,62 kr. í tengigjald á hvert símtal.

Samkvæmt ákvörðun PFS skulu hámarks lúkningarverð allra fyrirtækjanna verða þau sömu frá og með 1. mars nk.
Verðin munu síðan ráðast af árlegum verðsamanburði PFS við ríki innan EES-svæðisins. Með þessu er ein megin forsendan fyrir mismunandi verði á talsímaþjónustu ekki lengur til staðar, þ.e. þegar hringt er í annað talsímafélag en viðkomandi er í viðskiptum við.
Samkeppnisvandamál sem PFS hefur greint á þessum markaði má fyrst og fremst rekja til þess að það talsímafyrirtæki sem ræður yfir talsímanetinu þar sem símtalinu lýkur, er með einokunarstöðu á því neti.

Ákvörðun þessi kemur í kjölfar ákvörðunum PFS nr. 3/2012 og nr. 32/2012 þar sem verð vegna lúkningar í farsímanetum hafa verið lækkuð og jöfnuð. Þann 1. júlí nk. munu lúkningarverð í farsíma nema 1,66 kr. Verulega hefur því dregið úr verðmun á lúkningu símtala í talsíma- og farsímanetum, því hæstu verð fyrir lúkningu símtala í farsíma hafa til langs tíma numið um 12 kr./mín. Ákvarðanir þessar munu því einnig nýtast þeim sem hringja á milli farsíma- og talsímakerfa, ef umræddar aðgerðir PFS á heildsölumörkuðum skila sér yfir á smásölumarkaði.

Heildsölumarkaður fyrir flutning símtala í talsímanetum - kvöðum aflétt af Símanum
Niðurstaða PFS varðandi heildsölumarkað fyrir flutning símatala í talsímanetum (markaður 10) er sú að ekki séu lengur skilyrði fyrir hendi til leggja fyrirfram kvaðir á fyrirtæki á þeim markaði. PFS mun því aflétta kvöðum á Símann á viðkomandi markaði að 6 mánuðum liðnum frá birtingu ákvörðunar PFS nr. 37/2012.

Þar sem markaðsgreiningar eru viðvarandi verkefni PFS má búast við fleiri ákvörðunum stofnunarinnar á næstu misserum í framhaldi af greiningu annarra hluta fjarskiptamarkaðarins. PFS stefnir að því að ljúka annarri umferð greininga allra undirmarkað fjarskipta á næsta ári.

Sjá ákvarðanirnar í heild ásamt viðaukum:

Ákvörðun PFS nr. 36/2012 um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumörkuðum fyrir upphaf og lúkningu símtala í föstum almennum talsímanetum (markaðir 2 og 3) (PDF)
  • Viðauki A – Markaðsgreining á mörkuðum 2 og 3 (PDF)
  • Viðauki B – Niðurstöður úr samráði PFS um frumdrög að markaðsgreiningu á mörkuðum 2 og 3 (PDF)
  • Viðauki C – Álit ESA (PDF, enska)
Ákvörðun PFS nr. 37/2012 um niðurfellingu kvaða á heildsölumarkaði fyrir flutning símtala í föstum almennum talsímanetum (markaður 10 skv. eldri tilmælum ESA) (PDF)
  • Viðauki A – Markaðsgreining á markaði 10 (PDF)
  • Viðauki B – Niðurstöður úr samráði PFS um frumdrög að markaðsgreiningu á markaði 10 (PDF)
  • Viðauki C – Álit ESA (PDF, enska)
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábending þín er móttekin

Af hverju ekki?