Hoppa yfir valmynd
Tungumál EN
Heim

M7 - Ákvörðun 18/2010

16. júlí 2010

Póst- og fjarskiptastofnun birti þann 16. júlí 2010 ákvörðun sína nr. 18/2010 varðandi heildsölu á farsímamarkaði. Samkvæmt ákvörðuninni skal jafna og lækka verð heildsöluþjónustu um 50% til 67% úr 7,49 krónum annars vegar og 12 krónum hins vegar í 4 krónur í þrepum á næstu tveimur og hálfu ári. Upphafsgjöld verða afnumin. Ákvörðunin nær til allra farsímafélaganna hérlendis, þ.e. Símans, Vodafone, Nova, Tals og IMC/Alterna, en þrjú síðastnefndu báru ekki sérstakar kvaðir áður. Í lok tímabilsins munu öll félögin hafa sama hámarksverð á heildsöluverði farsímaþjónustu (s.k. lúkningarverði). Þessi breyting leiðir m.a. til þess að ein meginforsendan fyrir mismunandi verði á farsímaþjónustu þegar hringt er í annað farsímafélag verður ekki lengur til staðar.

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur nú lokið greiningu á markaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7). Á grundvelli niðurstaðna úr markaðsgreiningunni hefur PFS ákveðið að útnefna Símann með umtalsverðan markaðsstyrk í lúkningu símtala í eigin GSM (2G og 3G) og NMT farsímanet, Vodafone í eigin GSM farsímanet (2G og 3G), Nova í eigin GSM farsímanet (3G) og IMC/Alterna í eigin GSM farsímanet (2G).

Samkeppnisvandamál sem PFS hefur greint á viðkomandi mörkuðum má fyrst og fremst rekja til þess að farsímafyrirtækið sem ræður yfir netinu sem símtalinu er lokið í, er með einokunarstöðu á viðkomandi markaði. Flest samkeppnisvandamálin tengjast lúkningarverði. Að mati PFS á sér stað yfirverðlagning á símtölum milli kerfa. Kostnaðinum er þannig velt yfir á þá notendur sem eru tengdir öðrum farsíma- eða fastlínunetum.

PFS hefur ákveðið að leggja kvaðir á Símann vegna 2G og 3G farsímanets félagsins um aðgang, jafnræði, bókhaldslegan aðskilnað, eftirlit með gjaldskrá og kostnaðarbókhald. Sömu kvaðir eru lagðar á Vodafone að undanskyldri kvöð um kostnaðarbókhald. Þá eru lagðar kvaðir á Nova og IMC/Alterna um aðgang, jafnræði og eftirlit með gjaldskrá.

Á grundvelli kvaðar um eftirlit með gjaldskrá í GSM/UMTS farsímanetum hefur PFS ákveðið að leggja þær skyldur á farsímafélögin að lækka og jafna gjaldskrá fyrir lúkningarverð í eigin GSM/UMTS farsímanetum úr 7,49-12 kr. í 4 kr. í fjórum þrepum fram til ársloka 2012, sbr. neðangreinda töflu.

Lækkun lúkningarverða í GSM/UMTS farsímanetum fram til 1. janúar 2013:

 Fyrirtæki Eining
 Verð frá
ákvörðun
 Verð frá
1.9.2010
Verð frá
1.1.2011
 Verð frá
1.1.2012
 Verð frá
1.1.2013
 Síminn  kr./mín.  7,49  6,5  5,5  4,5  4,0
 Vodafone  kr./mín.  7,49  6,5  5,5  4,5  4,0
 Nova  kr./mín.  12,0  10,3  8,3  6,3  4,0
 IMC/Alterna  kr./mín.  12,0[1]  10,3  8,3  6,3  4,0

[1] Lúkningarverð IMC er 12 kr. gagnvart öðrum en Símanum. Lúkningarverð gagnvart Símanum er 7,49 kr. vegna símtala sem eiga sér upphaf í talsímaneti og/eða NMT neti Símans, en símtöl úr farsímaneti Símans sem enda í kerfi IMC eru verðlögð eins og um sé að ræða innankerfissímtöl í farsímaneti Símans, þ.e. upphaf og lúkning símtals er verðlagður á 6,53 kr.


Um verður að ræða hámarksverð og er félögunum því heimilt að bjóða lægri verð ef slíkt er í boði fyrir alla aðila (jafnræðiskvöð).

Borið hefur á kvörtunum og óánægju frá neytendum um að þeir eigi erfitt með að greina kostnað fyrir farsímaþjónustu þegar hringt er á milli neta annars vegar og innan nets viðkomandi farsímafélags hins vegar, en síðarnefndu símtölin eru oft án endurgjalds. Með því að jafna lúkningarverð er ein meginforsendan fyrir mismunandi verðlagningu fyrir símtöl innan og utan kerfa farsímafélaganna og hinu flókna og ógagnasæja verðfyrirkomulagi ekki lengur til staðar. Þess skal þó getið að um er að ræða heildsöluverðlagningu milli farsímafélaganna sem þarf ekki að endurspeglast alfarið á smásölumarkaði en að mati PFS eru allar forsendur til staðar fyrir verðlækkanir og einfaldari gjaldskrár á smásölumarkaði í kjölfar lækkana lúkningarverða á heildsölustigi.

Markmið fjarskiptalöggjafarinnar og PFS með markaðsgreiningum er að greina stöðu samkeppni á hinum ýmsu undirmörkuðum fjarskiptamarkaðarins og leggja á viðeigandi kvaðir til að efla samkeppni, sé hún ekki talin vera nægjanlega virk eins og sú niðurstaða sem nú liggur fyrir gefur til kynna. Það er von stofnunarinnar að með þessu mikilvæga skrefi muni samkeppni á farsímamarkaði eflast enn frekar, neytendum til hagsbóta.

Þar sem markaðsgreiningar eru viðvarandi verkefni PFS má búast við fleiri ákvörðunum stofnunarinnar á næstu misserum í framhaldi af greiningu annarra hluta fjarskiptamarkaðarins. Markaður fyrir aðgang og upphaf símtala í almennum farsímanetum næstur í röðinni.

  • Ákvörðun nr. 18/2010
  • Viðauki A - Greining á heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7)
  • Viðauki B - Niðurstöður úr samráði PFS um frumdrög að greiningu á heildsölumörkuðum fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7)
  • Viðauki C - Álit Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA)

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábending þín er móttekin

Af hverju ekki?