Hoppa yfir valmynd
Túngumál EN
Heim

M7 - Ákvörðun 3/2012

13. janúar 2012

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína varðandi heildsöluþjónustu á farsímamarkaði. Samkvæmt ákvörðuninni skal jafna og lækka lúkningarverð, þ.e. það verð sem farsímafyrirtæki tekur fyrir að ljúka símtali í sínu kerfi sem hefst í öðru kerfi.

Frá og með 1. janúar 2013 skal verðið vera að hámarki 4 kr./mín. hjá öllum íslenskum farsímarekendum, þ.e. Símanum, Vodafone, Nova, IMC/Alterna og Tali. Sá fyrirvari er þó gerður að fjárhæðin geti breyst fyrir þann tíma, þar sem PFS mun fyrir 1. nóvember 2012 taka ákvörðun um ný hámarks lúkningarverð sem byggjast munu á samanburði við slík verð á EES-svæðinu í samræmi við aðferðarfræði sem nánar er lýst í ákvörðuninni.

Um er að ræða þriðju ákvörðun PFS á viðkomandi markaði. Hin fyrsta var tekin á árinu 2006 þegar hæstu lúkningarverð námu um 15 kr./mín. Þá var kveðið á um lækkun lúkningarverða hjá Símanum og Vodafone. Næsta ákvörðun var tekin á árinu 2010 þegar IMC/Alterna og Nova bættust við og var gert að lækka lúkningarverð sín. Þann 1. janúar s.l. lækkuðu lúkningarverð Símans og Vodafone í 4,5 kr./mín og lúkningarverð Nova og IMC/Alterna í 6,3 kr./mín.

Tal hóf að veita lúkningarþjónustu haustið 2010 og hafa kvaðir ekki hvílt á fyrirtækinu fram að þessu. Tal hefur boðið lúkningarþjónustu á tæpar 13 kr./mín frá upphafi og því ljóst að verulegur munur er orðinn á lúkningarverði þess félags og ofangreindra félaga. PFS mælir nú fyrir um að lúkningargjald Tals lækki í 5,5 kr./mín eigi síðar en 1. mars 2012.

Ofangreindar breytingar leiða til þess að ein megin forsendan fyrir mismunandi verði á farsímaþjónustu, þegar hringt er í annað farsímafélag, verður ekki lengur til staðar. Samkeppnisvandamál sem PFS hefur greint á viðkomandi markaði má fyrst og fremst rekja til þess að það farsímafyrirtæki sem ræður yfir því farsímaneti þar sem símtalinu lýkur, er með einokunarstöðu á viðkomandi markaði. Flest samkeppnisvandamálin hafa tengst lúkningarverði og að mati PFS hefur átt sér stað yfirverðlagning á símtölum milli kerfa. Kostnaðinum hefur verið verið velt yfir á þá notendur sem koma inn í kerfið úr öðrum farsíma- eða talsímanetum. Með ákvörðunum PFS sér nú fyrir endann á þessu samkeppnisvandamáli.

Borið hefur á kvörtunum og óánægju frá neytendum um að þeir eigi erfitt með að greina kostnað fyrir farsímaþjónustu þegar hringt er annars vegar á milli neta og innan nets viðkomandi farsímafélags hins vegar, en síðarnefndu símtölin eru oft án endurgjalds. Með því að jafna lúkningarverð er ein megin forsendan fyrir mismunandi verðlagningu fyrir símtöl innan og utan kerfa farsímafélaganna og hinu flókna og ógagnsæja verðfyrirkomulagi ekki lengur til staðar. Þess skal þó getið að um er að ræða heildsöluverðlagningu milli farsímafélaganna sem þarf ekki að endurspeglast alfarið á smásölumarkaði, en að mati PFS eru allar forsendur til staðar fyrir verðlækkanir og einföldunar gjaldskráa á smásölumarkaði í kjölfar lækkana lúkningarverða á heildsölustigi.

Markmið fjarskiptalaga og PFS með markaðsgreiningum er að greina stöðu samkeppni á hinum ýmsu undirmörkuðum fjarskiptamarkaðarins og leggja á viðeigandi kvaðir til að efla samkeppnina, sé hún ekki talin vera nægjanlega virk, eins og sú niðurstaða sem nú liggur fyrir gefur til kynna. Það er von stofnunarinnar að með þessu mikilvæga skrefi muni samkeppni á farsímamarkaði eflast enn frekar, neytendum til hagsbóta.

Þar sem markaðsgreiningar eru viðvarandi verkefni PFS má búast við fleiri ákvörðunum stofnunarinnar á næstu misserum í framhaldi af greiningu annarra hluta fjarskiptamarkaðarins. PFS stefnir að því að ljúka annarri umferð greininga allra undirmarkaða fjarskipta á árinu 2012.

Sjá ákvörðun PFS nr. 3/2012 í heild ásamt viðaukum:
  • Ákvörðun nr. 3/2012 (PDF)
  • Viðauki A – Greining á heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7) (PDF)
  • Viðauki B – Niðurstöður úr samráði PFS um frumdrög að greiningu á heildsölumörkuðum fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7) (PDF)
  • Viðauki C – Álit Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) (PDF)

Sjá einnig fyrri ákvörðun PFS, nr. 18/2010
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábending þín er móttekin

Af hverju ekki?