Hoppa yfir valmynd
Túngumál EN
Heim

M 15 - Ákvörðun 11/2012

PFS afléttir kvöðum á Símann fyrir aðgang og upphaf símtala í farsímanetum

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) birti þann 30. mars 2012 ákvörðun sína varðandi heildsölumarkað fyrir aðgang og upphaf símtala í farsímanetum. Með ákvörðun PFS nr. 4/2007 var Síminn útnefndur með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi markaði og viðeigandi kvaðir lagðar á félagið, m.a. um að veita aðgang að farsímakerfi sínu. Slíkur aðgangur getur m.a. verið í formi innanlandsreikis, sýndarnetsaðgangs og endursöluaðgangs. Í kjölfar síðastgreindrar ákvörðunar hafa fyrirtæki eins og Tal og Alterna gert heildsölusamninga við Símann um aðgang að farsímaneti Símans, án þess að þurfa að byggja upp eigið dreifikerfi.

Sá markaður sem hér um ræðir var talinn upp í tilmælum ESA frá 2004 um viðkomandi markaði sem álitið var að þyrfti að greina af fjarskiptaeftirlitsstofnunum með það fyrir augum að setja viðeigandi kvaðir á fyrirtæki með markaðsráðandi stöðu, þar sem talið var að almennar samkeppnisreglur dygðu ekki til að efla samkeppni. Í endurnýjuðum tilmælum ESA frá 2008 var umræddur markaður felldur brott. Því þurfti PFS að greina umræddan markað á ný til að meta hvort þar ríkti nú virk samkeppni.

Niðurstaða PFS er á þá leið að umræddur markaður stefni í átt að virkri samkeppni og því séu ekki efni til að viðhalda útnefningu Símans sem fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi markaði. Kvöðum á Símann er því aflétt á tilteknum aðlögunartíma. Aðgangskvöð á Símann skal gilda í 12 mánuði frá birtingu ákvörðunarinnar og aðrar kvaðir í 6 mánuði. PFS mun áfram fylgjast náið með viðkomandi markaði og grípa inn í, t.a.m. með bráðabirgðaákvörðun, ef aðgangur að umræddum markaði lokast skyndilega. Þá getur Samkeppniseftirlitið að sjálfsögðu gripið inn í ef grunur vaknar um samræmdar aðgerðir netrekenda sem leiða til lokunar umrædds aðgangsmarkaðar.

Markmið fjarskiptalaga og PFS með markaðsgreiningum er að greina stöðu samkeppni á hinum ýmsu undirmörkuðum fjarskiptamarkaðarins og leggja á fjarskiptafyrirtæki viðeigandi kvaðir til að efla samkeppnina, sé hún ekki talin nægjanlega virk.

Sjá ákvörðunina í heild ásamt viðaukum:

  • Ákvörðun nr. 11/2012 (PDF)
    • Viðauki A – Greining á heildsölumarkaði fyrir aðgang og upphaf símtala í almennum farsímanetum (markaður 15) (PDF)
    • Viðauki B -  Niðurstöður úr samráði PFS um frumdrög að greiningu á heildsölumarkaði fyrir aðgang og upphaf símtala í almennum farsímanetum (markaður 15) (PDF)
    • Viðauki C – Álit Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) (PDF)
Sjá nánar um markaðsgreiningar hér á vefnum.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábending þín er móttekin

Af hverju ekki?