Hoppa yfir valmynd
Tungumál EN
Heim

M1 og 3-6 - Ákvarðanir 8/2013 og 9/2013

 18. júní 2013

Ákvarðanir PFS nr. 8 og 9 2013 - Markaðsgreiningar á mörkuðum 1 og 3-6
Síminn með umtalsverðan markaðsstyrk á smásölumarkaði fyrir aðgang að talsímanetinu en ekki á smásölumörkuðum fyrir talsímaþjónustu

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt tvær ákvarðanir sínar í framhaldi af markaðsgreiningu á smásölumörkuðum fyrir aðgang að fasta talsímanetinu annars vegar og á smásölumörkuðum fyrir almenna talsímaþjónustu á fastaneti hins vegar. Markaðir þessir voru áður greindir með ákvörðun PFS nr. 30/2008 þar sem Síminn var útnefndur með umtalsverðan markaðsstyrk á öllum mörkuðum. Í ákvörðun PFS nr. 8/2013 er Síminn ennþá talinn hafa umtalsverðan markaðsstyrk á smásölumarkaði fyrir aðgang að talsímanetinu en í ákvörðun PFS nr. 9/2013 er Síminn ekki lengur talinn hafa umtalsverðan markaðsstyrk á smásölumörkuðum fyrir talsímaþjónustu.

Ákvörðun nr. 8/2013 - Markaður 1
Fyrri ákvörðunin, nr. 8/2013, varðar smásölumarkað fyrir aðgang að fasta almenna talsímanetinu (markaður 1). Niðurstaða PFS varðandi þann markað er að Síminn njóti ennþá umtalsverðs markaðsstyrks á þeim markaði. Því er kvöðum viðhaldið á félagið á umræddum markaði, m.a. kvöðum um aðgang annarra fjarskiptafyrirtækja að fastaneti Símans og þjónustu á heildsölustigi á kostnaðargreindum verðum. Síminn skal m.a. bjóða lausn þar sem þjónustuveitendur með fast forval geta gert viðskiptavinum sínum einn heildstæðan reikning (e. single billing) fyrir bæði aðgengi að talsímanetinu og símnotkun. Þetta kemur í veg fyrir að endanotandi fái tvo aðskilda reikninga fyrir slíka þjónustuþætti. Kvöðunum er ætlað að styrkja þjónustuþættina „forval“, „fast forval“ og „fast forval – einn reikning“ sem valkosti fjarskiptafyrirtækja til að hasla sér völl á viðkomandi talsímamörkuðum í heildsölu. Þess má geta að það tók Símann töluverðan tíma að bjóða upp á „fast forval – einn reikning“ á kostnaðargreindum verðum í kjölfar fyrri ákvörðunar PFS á umræddum mörkuðum.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) gerir nú athugasemdir við þann langa tíma sem leið frá fyrri ákvörðunum PFS og þar til Síminn tók þessa þjónustu upp. Þess má geta að umrædd þjónusta hefur staðið fjarskiptafyrirtækjum til boða síðustu misseri þótt notkun hennar sé enn ekki mikil.

Ákvörðun nr. 9/2013 - Markaðir 3-6
Seinni ákvörðunin nr. 9/2013, varðar smásölumarkaði fyrir almenna talsímaþjónustu á fastaneti fyrir bæði heimili og fyrirtæki vegna bæði innanlands og millilandasímtala (markaðir 3-6 í eldri tilmælum ESA). Í fyrrgreindri ákvörðun PFS nr. 30/2008 var Síminn útnefndur með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi mörkuðum. Hins vegar voru engar smásölukvaðir lagðar á félagið þar sem PFS taldi að heildsölukvaðir á tengdum mörkuðum væru fullnægjandi til að leysa þau samkeppnisvandamál sem fyrir hendi væru á viðkomandi mörkuðum. Það er nú mat PFS að ekki séu lengur ríkjandi verulegar og viðvarandi aðgangshindranir á viðkomandi smásölumörkuðum. Auk þess hefur markaðshlutdeild Símans á umræddum mörkuðum lækkað verulega á síðustu árum. Það var því niðurstaða PFS að Síminn væri ekki lengur með umtalsverðan markaðsstyrk á mörkuðum 3-6. Þess má geta að engar athugasemdir bárust þegar kallað var eftir samráði um þessa markaðsgreiningu.

Athugasemdir ESA
Eins og að ofan greinir gerði ESA athugasemdir við þann langa tíma sem það tók Símann að virkja þjónustuleiðina „fast forval – einn reikningur“. Minnti ESA PFS á þær heimildir og skyldur sem fjarskiptaregluverkið kveður á um í þessu sambandi og hvetur stofnunina til að bregðast skjótt við ef aðilar með umtalsverðan markaðsstyrk tregðast við að fara að kvöðum. Þá hafði ESA efasemdir um að VoIP talsímaþjónusta sem veitt væri í gegnum flökkunúmer (e. nomadic services) tilheyrði markaði 1 eins og PFS gerði ráð fyrir. Hins vegar hefði nánari skoðun á því atriði engin áhrif á niðurstöður markaðsgreiningarinnar, m.a. vegna þess að ekki stæði til að leggja kvaðir á slíka þjónustu. Því myndi ESA ekki skoða það atriði nánar. Að lokum minnti ESA á að allar afleiddar ákvarðanir varðandi verðkvöð þá sem lögð væri á Símann á markaði 1 skyldi tilkynnt til ESA til samráðs áður en PFS tæki endanlega ákvörðun, m.a. varðandi ný verð eða skilmála gjaldskrár.

Sjá nánar:
  • Ákvörðun PFS nr. 8/2013 um útnefningu fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á smásölumarkaði fyrir aðgang að fasta almenna talsímanetinu fyrir heimili og fyrirtæki (Markaður 1) (PDF) skjal)
    • Viðauki A - Markaðsgreining á markaði 1 (PDF skjal)
    • Viðauki B - Niðurstöður úr samráði við hagsmunaaðila um markaðsgreiningu á markaði 1 (PDF skjal)
    • Viðauki C - Álit ESA (PDF skjal)
  • Ákvörðun PFS nr. 9/2013 um niðurfellingu útnefningar Símans sem fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk á smásölumörkuðum fyrir almenna talsímaþjónustu á fastaneti (Markaðir 3-6) (PDF skjal)

Skjölin má nálgast á ensku hér fyrir neðan:
  • PTA decision no. 8/2013 on the designation of an undertaking with significant market power and on the imposition of ex ante obligations on the retail market for access to public telephone network at a fixed location for residential and non-residential customers (Market 1) (PDF file)
  • PTA decision no. 9/2013 on the withdrawal of obligations on the retail markets for public telephone services provided at a fixed location for residential and non-residential customers (Markets 3-6) (PDF file)

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábending þín er móttekin

Af hverju ekki?