Notkun farsíma í reiki utan EES-svæðisins
Með orðinu reiki er átt við það þegar farsíma- eða tölvunotandi sem er í viðskiptum við ákveðinn þjónustuaðila fær aðgang að síma- og/eða netkerfum annarra þjónustuaðila.
Alþjóðlegt reiki er þegar aðgangur er veittur að síma- og/eða netkerfum þjónustuaðila í öðru landi.
Góðar ábendingar:
Að velja þjónustuaðila í útlöndum
Í mörgum tilfellum getur komið sér vel fyrir farsímnotendur að velja sjálfir hvaða þjónustufyrirtæki þeir vilja nota á meðan þeir dveljast erlendis. Það gildir ekki síst um þá sem ferðast utan Evrópu. Forsendan er þó að þjónustufyrirtækið heima hafi gert reikisamning við fleiri en eitt símafyrirtæki í því landi sem ferðast er til. Því er rétt að kynna sér reikisamninga þjónustufyrirtækisins og bera saman gjaldskrá þeirra erlendu símafyrirtækja sem það hefur samið við. Í leiðbeiningum um notkun flestra farsíma eru upplýsingar um hvernig hægt er að velja farsímanet í útlöndum, telji notandinn að sú reikiþjónusta sem sjálfkrafa kemur upp, sé ekki sú ódýrasta.
Get ég notað farsímann minn í útlöndum ef ég er með frelsi?
Hægt er að nota flest fyrirframgreidd símkort í útlöndum, en það getur þurft að skrá sig fyrir slíkri þjónustu áður en lagt er í ferðalag. Því er mælt með því að notendur fyrirframgreiddra korta kynni sér kjörin og gangi úr skugga um það hjá þjónustufyrirtækinu hvort þeir geti notað þau í því landi sem ferðast er til.
Hvað kostar og hver borgar hvað ?
Sá sem hringir frá Íslandi í farsímanotanda með íslenskt númer sem
staddur er í útlöndum greiðir skv. innanlandsgjaldskrá síns
fjarskiptafyrirtækis en sá sem tekur á móti símtalinu greiðir samkvæmt útlandagjaldskrá síns fjarskiptafyrirtækis. Því greiðir farsímanotandi í útlöndum bæði fyrir þau símtöl sem hann
hringir sjálfur og þau símtöl sem honum berast. Athugið þó að gjaldið er
lægra fyrir móttekin símtöl en þegar hringt er heim. Öll símtöl fara í gegnum símgátt þjónustufyrirtækis á Íslandi og því
jafngildir það millilandasímtali ef hringt er í vin eða ættingja sem er
með notandanum á ferðalagi og eru með honum í vinaáskrift. Talhólf
Farsímanotandi sem er í útlöndum greiðir
fyrir símtöl sem enda í talhólfinu hans eins og um móttekin símtöl sé að
ræða.
SMS og MMS
Það kostar jafnan meira að senda textaskilaboð frá útlöndum og heim heldur en innanlands. Greitt er fyrir MMS eins og gagnanotkun Kynntu þér verðskrána hjá fjarskiptafyrirtækinu þínu.
Snjallsímar, netlyklar og netnotkun
Þeir sem eru með 3G/4G síma eða önnur snjalltæki og hafa netþjónustu tengda geta aftengt þessa þjónustu þegar farið er til útlanda. Ef það er ekki gert fer síminn sjálfvirkt að leita að netþjónustu. Þetta getur haft mikinn aukakostnað í för með sér. Hægt er að fá aðstoð við að aftengja netþjónustumöguleika símans hjá því fyrirtæki sem viðkomandi er í viðskiptum við. Athugið þó að evrópskum farsímafyrirtækjum (þ.m.t. íslenskum) er skylt að láta notandann vita þegar um sérstök reikigjöld er að ræða og notkun nær 50 evrum.
Þegar fartölvan er tengd Netinu með netkorti eða netlykli sem notar 3G eða 4G kerfi er það sami kostnaður og þegar hlaðið er niður efni í farsímann.Svona slekkur þú á gagnaflutningi í símann:
Android símar:
- Velja Stillingar (Settings)
- Velja Fleiri net
- Velja Farsímakerfi (Mobile Networks)
- Taka hak úr reitum fyrir Farsímagögn og Gagnareiki (Use Packet Data eða Data enabled og Data Roaming)
(Athugið að smávægilegur munur getur verið á milli mismunandi tegunda android síma)
iPhone símar:
-
iOS 6 stýrikerfi:
- Velja Settings
- Velja General
- Velja Network
- Slökkva á Data Roaming (Cellular Data)
-
iOS 7 og iOS 8 stýrikerfi:
- Velja Settings
- Velja Cellular
- Slökkva á Data Roaming (Cellular Data)
Hugið að öryggi í netnotkun
Mikilvægt er að huga að öryggi í netnotkun allsstaðar. Kynntu þér upplýsingar um netöryggi í farsímanum á vefsíðunni Netöryggi.is
Talhólfsnotkun
Það kostar meira að taka á móti skilaboðum úr símsvaranum heima þegar
dvalið er erlendis og jafngildir það millilandasímtali að hringja í
talhólfið. Því er rétt að kynna sér fyrirfram á hvaða kjörum hægt er að
nýta símsvarann á meðan dvalið er í útlöndum. Farsímanotandi í útlöndum greiðir fyrir símtal sem endar í talhólfinu
hans jafnvel þó sá sem hringir leggi á um leið og talhólf svarar.
Þegar dvalið er um lengri tíma í útlöndum
Þegar dvalið er um lengri tíma í útlöndum getur borgað sig að kaupa SIM kort hjá einhverju símafyrirtæki í landinu og nota það númer. Þá greiðir þú ekki fyrir þau símtöl sem berast þér.