Póst og fjarskiptastofnun

Túngumál EN
Heim

PFS samþykkir viðmiðunartilboð Símans um innanlandsreiki

16. júlí 2008

Með ákvörðun nr. 13/2008, dags. 9. júlí s.l., samþykkti Póst- og fjarskiptastofnun viðmiðunartilboð Símans um innanlandsreiki, dags. 16. október 2007, með þeim breytingum sem kveðið var á um í viðauka með ákvörðuninni. Helstu breytingar voru eftirfarandi:

Felld var út sú takmörkun um að tilboðið tæki einungis til landsbyggðarinnar. Í stað þess er kveðið á um að réttindi farsímafyrirtækja takmarkist við skilyrði tíðniheimilda viðkomandi fyrirtækis þar sem kveðið er á um útbreiðslu og uppbyggingarskyldu fyrirtækis og/eða að fyrirtækið hafi yfir að ráða eigin neti á því svæði sem óskað er eftir reikiaðgangi.

Breytt var skilmálum varðandi skörun heimasvæða (eigið net farsímafyrirtækis) og reikisvæða og hvenær Símanum er heimilt að loka fyrir reikiaðgang sem veittur hefur verið.

Þá voru einnig gerðar breytingar á ákvæðum um verðlagningu fyrir reiki. Til viðbótar þeim skilmálum sem Síminn birti, sem kváðu m.a. á um óafturkræft lágmarksgjald fyrir 6 mánaða reikiaðgang, grunngjald á hvern sendi og innifaldar talmínútur í hverjum sendi án heimildar til að nýta vannýttar innifaldar talmínútur sem inneign á öðrum sendi, er nú einnig kveðið á um það að farsímafyrirtæki geta einnig valið þá leið að greiða einungis fyrir hverja keypta reikimínútu gegn því að greiða hærra mínútuverð. Mínútuverð í báðum þessum leiðum er háð fjölda senda sem viðkomandi farsímafyrirtæki fær aðgang að. Eftir því sem sendum í reiki fækkar hækkar mínútuverðið.

Sjá ákvörðunina í heild ásamt viðauka:
Ákvörðun 13/2008 um viðmiðunartilboð Símans um innanlandsreiki
Viðauki - Fyrirmæli um breytingar

 

Til baka