Hoppa yfir valmynd

Ákvörðun PFS í ágreiningsmáli Íslandpósts hf. gegn íbúum í nokkrum húsum í Helgafellssveit, staðsetning bréfakassa.

Tungumál EN
Heim
20. mars 2009

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 4/2009, Íslandspóstur gegn ábúendum á nokkrum bæjum í Helgafellssveit, staðsetning bréfakassa.
Í ákvörðunarorðum segir:

Staðsetning bréfakassa fyrir húsin þrjú að Bjarnarhöfn og Bjarnarhöfn 2 skal eigi vera fjær en 500 metrar frá húsakynnum ábúenda.
Staðsetning bréfakassa fyrir bæina Saurar og Norðurás skal vera við vegamót þar sem vegurinn skiptist heim að Saurum. Staðsetning bréfakassa fyrir Birkilund 39, Birkilund 39A og Birkilund 50 skal vera við fyrstu vegamót þar sem hin skipulagða byggð byrjar.“

Forsaga málsins er sú að Íslandspóstur náði ekki samkomulagi við ábúendur varðandi staðsetningu bréfakassa sem þjóna áttu viðkomandi bæjum. Taldi fyrirtækið það mikið hagsmunamál að bréfakassar í dreifbýli væru rétt staðsettir og vísaði m.a. til þess að dreifing í dreifbýli væri mjög dýr, þeirrar framkvæmdar sem viðhaft er við dreifinguna og nauðsynjar þess að fyrirtækið fái að dreifa pósti á eins hagkvæman hátt og kostur er innan þeirra leikreglna sem löggjöfin biði upp á.

Íbúar vísuðu m.a til þess að bréfkassar ættu að vera heim við íbúðarhús, að ekkert samráð hafi verið haft við þá af hálfu Íslandspósts um staðsetninguna, jafnræðisreglna og til þeirra hættu sem gæti skapast ef bréfakassar væru settir upp utan alfaraleiðar.

Í ákvörðun PFS kemur m.a. fram að lengi hafi tíðkast í dreifbýli að bréfakassar séu staðsettir þar sem vegir heim að bæjum tengjast þjóðvegakerfinu. Í 16. gr. reglugerðar um alþjónustu nr. 364/2003, sé kveðið á um nokkrar meginreglur sem leggja skal til grundvallar við val á staðsetningu bréfakassa, skilgreining á þéttbýli, ákveðnar vegalengdir sem taka ber mið af og svo sérstakar undanþágur s.s. hlutfallsreglu, ef ekkert vegasamband er við húsið eða það staðsett langt utan við almenna byggð.
Í ákvörðuninni er farið yfir ofangreind sjónarmið og staðsetning bréfakassa fyrir hvert einstakt hús ákvarðað með hliðsjón af meginreglum 16. gr. reglugerðar um alþjónustu.

Ákvörðun PFS nr. 4/2009

Til baka