Hoppa yfir valmynd

Könnun PFS á eiginleikum IP fjarskiptaneta og gæðum netþjónustu í dreifbýli

Tungumál EN
Heim
18. febrúar 2011

Póst- og fjarskiptastofnun hefur gert könnun á eiginleikum IP fjarskiptaneta og gæðum netþjónustu meðal þeirra aðila sem veita slíka þjónustu í dreifbýli. Könnunin er liður í eftirlitshlutverki PFS og er ætlað að stuðla að því að fjarskiptafyrirtæki hlíti reglum þeim er stofnunin hefur sett. Við úrvinnslu skilagagna kom fram að víða er úrbóta þörf.  Verður fyrirtækjunum gefinn frestur til 1. júlí 2011 til að bæta úr því sem á vantar til að öllum reglum sé fylgt.  Ef svo verður ekki mun stofnunin grípa til aðgerða gagnvart viðkomandi fjarskiptafyrirtækjum í samræmi við heimildir í fjarskiptalögum.

PFS leggur áherslu á að efla upplýsingar til neytenda á fjarskiptamarkaði og birtir því niðurstöður könnunarinnar hér á vefnum. Birting gagnanna auðveldar neytendum að átta sig á gæðum þeirrar netþjónustu sem í boði er og að velja þá þjónustu sem hentar þeim.  Þar geta nokkrir þættir skipt máli, svo sem eiginleikar undirliggjandi fjarskiptaneta, hvernig og á hve skjótan hátt fjarskiptafyrirtækin bregðast við bilunum og hvernig öryggisskipulag fyrirtækin setja sér. Það er von stofnunarinnar að með þessu eflist almenn vitund um þá þætti sem skipta máli um gæði netþjónustu og upplýsingagjöf fjarskiptafyrirtækjanna til viðskiptavina sinna.

Könnunin var framkvæmd þannig að bréf ásamt spurningalista var sent til allra netþjónustuaðila í dreifbýli í lok desember 2010 og þeim gefinn frestur fram í miðjan janúar til að skila svörum. 
Meðal þeirra atriða sem spurt var um má nefna öryggisstefnu og upplýsingagjöf til viðskiptavina, sem og áætluð tímasetning á því hvenært fyrirtækið ætlar að vera búið að gera úrbætur þar sem þeirra er þörf. 

 Meðal þeirra atriða þar sem úrbóta er víða þörf má nefna:

  • Oft er óskýrt hvaða flutningstækni er notuð.
  • Öryggisstefna viðkomandi fyrirtækis um virkni og öryggi fjarskiptanetanna er óvíða gerð opinber, þ.e.a.s. ef hún er þá til.
  • Hraðamælingar eru víða ófullnægjandi og ekki í samræmi við reglur stofnunarinnar um eigið kerfi fjarskiptafyrirtækja til slíks brúks fyrir viðskiptavini sína. Gerð er sú krafa að mælingar séu sem marktækastar og mælingakerfið sé því innan heildar-fjarskiptanets viðkomandi fjarskiptafyrirtækis. Það skal ekki vera vistað í netum annars aðila þar sem fjarskiptafyrirtækið hefur engja stjórn á hraða viðkomandi neta, en þetta virðist oft vera raunin.
  • Sama gildir um pakkatöf (töf gagnapakka í flutningi), sem og breytileika tafarinnar, sem hvort tveggja skiptir t.d. leikjaunnendur og aðra notendur töluverðu máli svo sem við Skype símtöl.
  • Birtingu ýmissa annarra gagna um gæði netumferðarflæðis  er oft ábótavant, svo sem um meðal umferðarálag í samtengingum við önnur fjarskiptanet og í útlandasamböndum. Aukið umferðarálag skýrir m.a. hæga umferð.
  • Atburðaskrá sem sýnir sögu bilana og truflana
  • Víða vantar dagsetningu um hvenær viðkomandi fjarskiptafyrirtæki hyggst lagfæra þau atriði sem eru ekki í lagi skv. reglum stofnunarinnar.

> Sjá svör einstakra fjarskiptafyrirtækja. Svörin eru flokkuð eftir svæðum og flutningstækni.

Sjá einnig nánari skýringar á hugtökum og spurningum í spurningalistanum.

Eins og fyrr segir er þessi fyrsta könnun PFS eingöngu gerð meðal netþjónustuaðila í dreifbýli. Könnunin verður endurtekin á þessu ári og einnig er gert er ráð fyrir að sams konar könnun verði gerð á meðal netþjónustuaðila í þéttbýli á árinu.

 

Til baka