Hoppa yfir valmynd

Niðurstöður PFS að loknu samráði um tíðniskipulag

Tungumál EN
Heim
19. desember 2011

Póst- og fjarskiptastofnun hefur það hlutverk, samkvæmt lögum um fjarskipti nr. 81/2003, að annast skipulag tíðnirófsins þannig að hagnýting þess í þágu fjarskipta sé skilvirk, hagkvæm og truflanalaus. Í störfum sínum horfir PFS jafnframt til eins helsta markmiðs fjarskiptalaga um að íslenska ríkið skuli tryggja, eftir því sem kostur er, að öllum landsmönnum bjóðist aðgangur að fjarskiptaþjónustu eftir því sem mælt er fyrir um í fjarskiptalögum.  Þann 1. júlí í sumar birti Póst- og fjarskiptastofnun drög að tíðnistefnu sinni til umsagnar.

Um leið birti PFS samráðsskjal um farnetsþjónustu og úthlutun tilheyrandi tíðnisviða. Eftir því samráði var kallað í framhaldi af fyrri samráðum, annars vegar samráði sem viðhaft var um framtíðarskipulag á 900 MHz tíðnisviðinu, sem fram fór sumarið 2008, og sérstöku samráði sem efnt var til sumarið 2009 í tengslum við fyrirhugaða úthlutun á tíðniheimild til Nova á 1800 MHz tíðnisviðinu. Þá voru jafnframt lagðar fyrir almennar spurningar um skipulag og ráðstöfun tíðnisviðsins. Niðurstöður úr þessum tveimur samráðum hafa síðan haft áhrif á það skipulag sem er við lýði í dag á umræddum tíðnisviðum, auk þess sem þá var lagður grunnur að þeim aðgerðum sem PFS kallaði eftir samráði um í þessari umferð.

Frestur til að gera athugasemdir við umræðuskjalið var gefinn til 19. ágúst sl. og skiluðu fjórir aðilar inn formlegum umsögnum innan tilskilinna tímamarka, þ.e. Síminn, Nova, IMC Ísland og Vodafone.

Helstu niðurstöður PFS að loknu samráðinu eru m.a. þessar:

  • Tíðniréttindi á 800 MHz tíðnisviðinu, m.a. til notkunar fyrir fjórðu kynslóð farnetsþjónustu, verða boðin upp þegar aðstæður leyfa á árinu 2012. Gert verður ráð fyrir því að 800 MHz tíðnisviðið verði tæknilega hlutlaust.
  • Tíðniheimildum á 900 MHz tíðnisviðinu verður endurúthlutað til núverandi tíðnirétthafa samkvæmt fyrirliggjandi umsóknum til ársins 2022. Hluti af úthlutuðu tíðnisviði til Símans og Vodafone verður þó með skemmri gildistíma eða til 5 ára.  Tíðnisviðið verður bundið við GSM/UMTS farsímaþjónustu.
  • Núverandi tíðniréttindum á 1800 MHz verður endurúthlutað til núverandi tíðnirétthafa samkvæmt fyrirliggjandi umsóknum til ársins 2022. Nova mun gefast tækifæri á því að bæta við sig tíðnisviði  þannig að það verði 2x15 MHz á stærð til samræmis við tíðniheimildir Símans og Vodafone. Gerður verður fyrirvari varðandi breytingar á skilmálum heimildanna, t.d. í tengslum við útbreiðslukröfur sem mótaðar verða í tengslum við uppboð á afganginum á tíðnisviðinu. Uppboð á afganginum, samtals allt að 2x25 MHz (miðað við að Nova kjósi að bæta við sig tíðnisviði), mun fara fram samhliða uppboði á 800 MHz tíðniréttindum, sbr. ofangreint. Gert verður ráð fyrir því að 1800 Mhz tíðnisviðið verði tæknilega hlutlaust.
  • Miðað við fyrirséða vaxandi eftirspurn eftir tíðnisviðum fyrir fjórðu kynslóð farneta er útlit er fyrir að 2600 MHz tíðnisviðið, sem nú er að mestum hluta nýtt fyrir MMDS sjónvarpsþjónustu, verði úthlutað til nota fyrir fjórðu kynslóðar farnetsþjónustu við lok gildistíma tíðniheimildar Vodafone í júní 2014.

Í forsendum samráðsins áskildi PFS sér rétt til þess að birta efni aðsendra umsagna, en þó án þess að tilgreina nafn umsagnaraðila. Er hlekkur í niðurstöðuskjal PFS hér fyrir neðan.

Nánari upplýsingar veitir Þorleifur Jónasson forstöðumaður tæknideildar Póst- og fjarskiptastofnunar, netfang: thorleifur(hjá)pfs.is

Niðurstöður PFS vegna samráðs um tíðniskipulag (PDF)

 

 

 

 

Til baka