Hoppa yfir valmynd

Póst- og fjarskiptastofnun samþykkir beiðni Íslandspósts um hækkun á gjaldskrá fyrir bréf innan einkaréttar

Tungumál EN
Heim

Póst- og fjarskiptastofnun samþykkir beiðni Íslandspósts um hækkun á gjaldskrá fyrir bréf innan einkaréttar

23. desember 2013

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 32/2013 þar sem stofnunin samþykkir, að hluta til, beiðni Íslandspósts hf. um hækkun gjaldskrár fyrir bréf innan einkaréttar.

Beiðni Íslandspósts um hækkun á gjaldskrá bréfpósts innan einkaréttar nam á bilinu 21-32% eftir því um hvaða þjónustuflokk var að ræða. Það er á hinn bóginn mat PFS að tilgreindar forsendur Íslandspósts fyrir verðhækkun séu ekki að öllu leyti fyrir hendi og því geti stofnunin ekki samþykkt hækkunarbeiðni félagsins óbreytta.

Niðurstaða stofnunarinnar er að forsendur séu fyrir því að gjaldskrá fyrir bréf innan einkaréttar hækki sem nemur u.þ.b. 9% sé litið til vegins meðaltals þjónustuflokka.

Eftir hækkun verður þá verð, á þeim flokkum bréfa sem tilheyra einkarétti, eftirfarandi:

A póstur - 130 kr.
B póstur - 112 kr.
AM póstur - 96 kr.
BM póstur - 78 kr.
Byggir hækkunin fyrst og fremst á áframhaldandi þróun undanfarinna ára um verulegan samdrátt í póstmagni, en á árinu 2013 hefur póstmagn minnkað um 6%. Fyrir árið 2014 er gert ráð fyrir um 5% samdrætti. Auk þess er horft til kostnaðarhækkana sem orðið hafa frá því að gjaldskrá innan einkaréttar tók síðast breytingum þann 1. júlí 2012.

Ef litið er á gjaldskrá Íslandspósts og hún borin saman við sambærilegar gjaldskrár á Norðurlöndunum, sem taka gildi þann 1. janúar 2014 kemur í ljós að fyrirtækið er með næst ódýrustu þjónustuna fyrir A og B póst, hvort sem miðað er við beinan samanburð í krónum talið, eða jafnvirðisgildi (PPP). (Sjá samanburðartöflur á bls. 12 í ákvörðun PFS).

Verðhækkanir á Norðurlöndum þann 1. janúar 2014:

   A póstur   B póstur
Lönd, gjaldmiðill
 2013  2014  Hækkun  2013  2014  Hækkun
 Ísland, ISK  120   130   8,3%    103  112   8,7%
 Danmörk, DKK   8   9  12,5%   6
 6,5  8,3%
 Finnland, EUR  0,85  1   17,6%   0,75  0,9  20,0%
 Noregur, NOK  9,5  10   5,3%  9   9   0,0%
 Svíþjóð, SEK  6  6    0,0%  5,5   5,5   0,0%

 Nánari rökstuðning fyrir samþykkt PFS á beiðni Íslandspósts er að finna í ákvörðuninni sjálfri:

Ákvörðun PFS nr. 32/2013 um hækkun á gjaldskrá Íslandspósts ohf., á bréfum innan einkaréttar (PDF)

 

Til baka