Hoppa yfir valmynd

Samráð við ESA um markaðsgreiningu á leigulínumörkuðum

Túngumál EN
Heim

Samráð við ESA um markaðsgreiningu á leigulínumörkuðum

21. mars 2014

Í dag sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) drög að tveimur ákvörðunum er lúta að markaðsgreiningum á leigulínumörkuðum. Annars vegar er um að ræða heildsölumarkað fyrir lúkningarhluta leigulína (markaður 6) og hins vegar smásölumarkað fyrir lágmarksframboð af leigulínum (áður markaður 7). Þriðji leigulínumarkaðurinn, þ.e. heildsölumarkaður fyrir stofnlínuhluta leigulína (áður markaður 14), verður greindur á næstu mánuðum.

PFS hyggst viðhalda útnefningu Mílu, sbr. ákvörðun PFS nr. 20/2007, sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á heildsölumarkaði fyrir lúkningarhluta leigulína (markaður 6) og álagningu viðeigandi kvaða á félagið. Þrátt fyrir innkomu Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. og fleiri staðbundinna netrekenda er markaðshlutdeild Mílu enn um 70-80% samkvæmt algengustu viðmiðum um markaðshlutdeild og eru enn verulegar aðgangshindranir ríkjandi á viðkomandi markaði að mati PFS.

Lúkningarhluti leigulína er skilgreindur sem aðgangsmarkaður á heildsölustigi fyrir stöðuga afkastagetu á merkjasendingum á þeim hluta fjarskiptanetsins þar sem notandinn hefur einn aðgang að allri tengingunni. Markaðurinn liggur á milli notandans (heimili eða fyrirtæki) og hnútpunkta/símstöðva og tengja notendur við einn punkt þar sem stofnlínukerfið tekur við. Þessi sambönd eru leigð öðrum fjarskiptafyrirtækjum sem gerir þeim kleift að veita þjónustu á ýmsum smásölumörkuðum eins og t.d. talsímaþjónustu, internetþjónustu og aðra gagnaflutningsþjónustu. Markaðurinn nær yfir bæði stafrænar og hliðrænar línur og sambönd með allri mögulegri tækni og flutningsmiðlum. Flutningsmiðlar geta verið svartur ljósleiðari (ljósleiðari án endabúnaðar), kopar og þráðlaus sambönd. Fyrrgreindur heildsölumarkaður fyrir stofnlínuhluta leigulína (áður markaður 14) nær hins vegar yfir tengileiðir milli símstöðva og dreifingarstaða.

PFS hyggst hins vegar fella niður útnefningu Símans sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á smásölumarkaði fyrir lágmarksframboð af leigulínum (áður markaður 7). Þar með féllu kvaðir þær sem lagðar voru á Símann með ákvörðun PFS nr. 20/2007 niður. PFS telur að veigamestu aðgangshindranirnar sem áður voru ríkjandi á umræddum markaði séu ekki lengur til staðar í þeim mæli að geta talist miklar og viðvarandi. PFS telur að þau fjarskiptafyrirtæki sem hafa þörf fyrir að bjóða viðskiptavinum sínum leigulínur í smásölu eigi greiðan aðgang að heildsöluþjónustu sem þjónar þörfum þeirra, sbr. heildsölukvaðir á ofangreindum markaði 6. PFS telur samt þörf á því að fylgjast náið með markaðnum og er stofnunin tilbúin að taka til skoðunar hvort gera þurfi aðra greiningu ef aðstæður breytast verulega.

Umræddur smásölumarkaður er skilgreindur sem lágmarksframboð á leigulínum með flutningsgetu allt að 2 Mb/s til endanlegra notenda. Notendur eru þeir sem nota þjónustuna í eigin þágu og nýta hana ekki sem aðföng fyrir fjarskiptaþjónustu til endursölu, þ.e. heimili og fyrirtæki en ekki önnur fjarskiptafyrirtæki. PFS skilgreinir leigulínur sem stöðuga flutningsgetu á merkjasendingum milli fyrirfram skilgreinda punkta.

PFS telur hins vegar mikilvægt að sá aðgangur sem þegar er fyrir hendi í dag sé tryggður yfir hæfilegt tímabil sem ætti að nægja til aðlögunar að niðurfellingu framangreindra kvaða. PFS telur að þar sem hægt er að leita til fleiri en eins aðila varðandi smásölu á leigulínum og ekki er um að ræða mikla undirbúningsvinnu þegar skipt er um þjónustuveitanda á einstökum leigulínum, þá þurfi aðlögunartími ekki að vera mjög langur. PFS hyggst því mæla fyrir um að kvaðir á Símann á viðkomandi smásölumarkaði falli niður að liðnum þremur mánuðum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar í málinu. Það gæti orðið í lok apríl sem þýðir að kvaðir falli brott um mánaðamótin júlí/ágúst nk.

Drög að ofangreindum ákvörðunum eru nú send til ESA og annarra eftirlitsstofnana á EES-svæðinu með vísan til 7. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. ESA og aðrar eftirlitsstofnanir hafa einn mánuð til að setja fram athugasemdir við ákvörðunardrögin. Eftir það getur PFS formlega tekið ákvörðun um viðkomandi markaði nema fram komi óskir frá ESA um að PFS dragi ákvörðunardrögin til baka. Ekki er gert ráð fyrir því að innlendir hagsmunaðilar geri athugasemdir við ákvörðunardrögin að þessu sinni, en innanlandssamráð um þau stóð yfir frá 27. nóvember 2013 til 20. janúar sl.

Sjá samráðsskjölin á íslensku og ensku:

Markaður 6

Skjölin á íslensku:
Skjölin á ensku:
M6 - Drög að ákvörðun PFS  M6 - PTA Draft Decision
M6 - Viðauki A - Markaðsgreining
 M6 - Appendix A - Market Analysis
M6 - Viðauki B - Niðurstöður úr innanlandssamráði
 M6 - Appendix B - Conclusions from consultation

 

Markaður 7 (skv. eldri tilmælum):

Skjölin á íslensku:
 Skjölin á ensku:
 M7 - Drög að ákvörðun PFS
 M7 - PTA Draft Decision
 M7 - Viðauki A  - Markaðsgreining
 M7 - Appendix A - Market Analysis
   

 

Til baka