Hoppa yfir valmynd

PFS heimilar Íslandspósti að fella niður sérstaka gjaldskrá fyrir blöð og tímarit

Túngumál EN
Heim

PFS heimilar Íslandspósti að fella niður sérstaka gjaldskrá fyrir blöð og tímarit

1. apríl 2014

Með ákvörðun nr. 3/2014 heimilar Póst- og fjarskiptastofnun Íslandspósti að fella niður hinu sérstöku gjaldskrá fyrir blöð og tímarit.

Sérstök gjaldskrá fyrir blöð og tímarit hefur lengi verið hluti af þjónustuframboði Íslandspósts og þar á undan Póst- og símamálastofnunar.

Tilvist hennar byggði á sínum tíma á heimild í lögum þar sem Íslandspósti, sem einkaréttarhafa var gert að annast póstmeðferð utanáritaða dagblaða, vikublaða og tímarita samkvæmt sérstakri gjaldskrá, lægri en fyrir aðrar póstsendingar af sömu þyngd, stærð og umfangi, sbr. 14. gr. laga nr. 145/1996 um póstþjónustu.

Í núgildandi lögum nr. 19/2002 um póstþjónustu er hins vegar ekki að finna sambærilegt ákvæði. Í greinargerð með lögunum var m.a. vikið að því að ekki væri nauðsynlegt að samgönguráðherra væri gert heimilt að mæla fyrir um að einkaréttarhafar annist póstmeðferð samkvæmt sérstakri gjaldskrá, lægri en fyrir aðrar sambærilegar sendingar. Íslandspóstur hefur síðan hin sérstaka heimild var felld niður unnið að því að aðlaga gjaldskrá fyrir blöð og tímarit og gera hana sambærilega við aðrar gjaldskrár fyrirtækisins og miða hana út frá þyngd, ummáli og magni póstsendinga. Segja má að það skref sem nú er stigið sé lokaáfangi þeirra vegferðar, sem hófst fyrir nokkrum árum.

Eftir breytingarnar mun sama gjaldskrá og afsláttarskilmálar gilda fyrir allar sendingar sem falla undir þyngdarflokkanna „Almenn bréf 51-2000 gr.“

Í ljósi þess að breytingin kann að hafa umtalsverð áhrif til hækkunar, sérstaklega á þá sendendur sem hafa póstlagt blöð og tímarit samkvæmt hinni sérstöku gjaldskrá, hefur Póst- og fjarskiptastofnun m.a. beint þeim tilmælum til Íslandspósts, að fyrirtækið veiti hæfilegan frest til aðlögunar áður en hinir breyttu afsláttarskilmálar taka gildi.

Sjá ákvörðunina í heild:
Ákvörðun PFS nr. 3/2014 Um gjaldskrá og skilmála Íslandspóst fyrir almenn bréf 51-2000gr (PDF)

Sjá einnig :
Ákvörðun PFS nr. 3/2013 um bráðabirgðaákvörðun vegna kvörtunar Árvakurs hf. vegna fyrirhugaðra breytinga Íslandspósts á gjaldskrá í þyngdarflokknum 51- 2000 gr (PDF)

Til baka