Hoppa yfir valmynd

Stærsta samevrópska netöryggisæfingin til þessa hefst í dag

Tungumál EN
Heim
28. apríl 2014

Í dag hefst samevrópska netöryggisæfingin Cyber Europe 2014 (CE2014).
CE2014 er mjög margbrotin netöryggisæfing og fleiri en 600 öryggisaðilar víða að úr Evrópu taka þátt.

Yfir 200 stofnanir og 400 netöryggissérfræðingar hvaðanæva úr Evrópu leggja saman krafta sína í dag, sem er fyrsti áfangi allsherjar netöryggisæfingarinnar Cyber Europe 2014, á vegum Netöryggisstofnunar Evrópusambandsins (ENISA). Tuttugu og níu ESB og EFTA lönd taka þátt í æfingunni að þessu sinni, Ísland þar á meðal.

Í þeim áfanga sem hefst í dag þurfa þátttakendur að bregðast við og leysa úr nokkrum netöryggisatvikum þar sem líkt er eftir raunverulegum atburðum. Þátttakendur eru úr opinbera geiranum (netöryggisstofnanir, CERT sveitir, ráðuneyti og stofnanir) og úr einkageiranum (orku- og fjarskiptageirar). Þessir aðilar fá það verkefni að rannsaka og greina nokkrar mismunandi atburðarásir sem gætu haft áhrif á vernd, traust og aðgengi viðkvæmra upplýsinga, eða bein áhrif á ómissandi upplýsingainnviði samfélagsins (e.Critical Information Infrastructures – CII).

Æfingin er haldin annað hvert ár af Netöryggisstofnun Evrópusambandsins (ENISA), í samvinnu við öll ríki innan ESB og EFTA landanna. Æfingin nú er mun umfangsmeiri, stærri og flóknari en tvær síðustu æfingar sem haldnar voru 2010 og 2012. Hún verður haldin í þremur áföngum: tæknilegur áfangi sem haldinn er í dag og síðar á árinu verða æfðir þættir sem snúa að aðgerðum og úrræðum og síðan þættir sem snúa að skipulagi viðbragð og aðkomu stjórnvalda.

Framkvæmdastjóri ENISA, prófessor Udo Helmbrecht, segir um æfinguna: „Atvikin í Cyber Europe 2014 eru mjög raunveruleg og líkja eftir óróa og pólitísku hættuástandi sem nær til allrar Evrópu og raskar þjónustu við milljónir Evrópubúa. Cyber Europe 2014 markar þáttaskil í eflingu samvinnu, viðbúnaðar og viðbrögða í Evrópu allri. Þetta mun auka áfallaþol ómissandi upplýsingainnviða í Evrópu“

Meðal markmiða Cyber Europe 2014 eru:

  • að prófa núverandi verklagsferla og gangverk til að stjórna viðbrögðum gagnvart hættuástandi vegna netárása í Evrópu
  • að efla viðbúnað hjá hverri þjóð fyrir sig
  • að skoða núverandi samstarf einkageirans og hins opinbera
  • að greina ferla er lúta að stigmögnun viðbragða og hvernig dregið er úr (tæknilega, í framkvæmd og á efri stigum ákvarðantöku)
  • að efla skilning á þeim þáttum sem snúa að almenning þegar um öflugar netárásir er að ræða.
Athugið:
Æfingin mun ekki hafa áhrif á upplýsingakerfi eða –þjónustu.

CERT-ÍS, netöryggissveit PFS kom að skipulagningu og framkvæmd æfingarinnar fyrir Íslands hönd.
Nánari upplýsingar gefur Stefán Snorri Stefánsson hópstjóri CERT-ÍS, s. 510-1526

Sjá nánari upplýsingar á vef ENISA – Netöryggisstofnunar Evrópu

Til baka