Hoppa yfir valmynd

Samráð við ESA um kostnaðargreiningu á verðskrá fyrir bitastraumsaðgang

Tungumál EN
Heim

Samráð við ESA um kostnaðargreiningu á verðskrá fyrir bitastraumsaðgang

20. júní 2014

Í dag sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) drög að ákvörðun varðandi kostnaðargreiningu Mílu ehf. á verðskrá fyrir bitastraumsaðgang samkvæmt aðgangsleiðum 1 og 3.

Kostnaðargreiningin kemur í kjölfar ákvörðunar PFS nr. 38/2012 um aðgangsleið 1 sem byggir á ákvörðun PFS nr. 8/2008 um útnefningu fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumarkaði fyrir breiðbandsaðgang.

Stofnunin hyggst samþykkja kostnaðargreiningu Mílu ehf. með þeim breytingum sem mælt er fyrir um í fyrirhugaðri ákvörðun stofnunarinnar.

Það er fyrirhuguð niðurstaða PFS að ekki skuli gerður greinarmunur á verði fyrir ADSL og VDSL þjónustu í aðgangsleiðum 1 og 3. Áformað er að mánaðarverð fyrir aðgangsleið 1 verði 912 kr. en mánaðarverð aðgangsleiðar 3 verði 1.367 kr. Samanborið við núverandi bráðabirgðaverð þá helst verðið á ADSL tengingu samkvæmt aðgangsleið 1 nánast óbreytt en verð fyrir VDSL tengingu samkvæmt aðgangsleið 1 lækkar um tæp 17%, gangi áformin eftir. Við samræmingu gjaldskrár fyrir ADSL og VDSL þjónustu er gert ráð fyrir að verðið á ADSL tengingu samkvæmt aðgangsleið 3 lækki á meðan verðið á VDSL tengingu samkvæmt aðgangsleið 3 hækki.

Í framangreindri kostnaðargreiningu Mílu ehf. voru jafnframt reiknuð verð fyrir sjónvarpsþjónustu (e. multicast), VoIP þjónustu og aðgang að heildsöluskipti í aðgangsleið 1. Hina fyrirhuguðu nýju gjaldskrá má finna í heild sinni í viðauka I í fyrirhugaðri ákvörðun PFS.Fyrirhugað er að hin nýja verðskrá Mílu ehf. taki gildi næstu mánaðamót eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar í málinu. Heimili ESA PFS að taka umrædda ákvörðun má búast við endanlegri ákvörðun í málinu í lok júlí nk. sem þýðir að hin nýju verð taka gildi þann 1. ágúst nk.

Á næstu dögum mun PFS ennfremur efna til samráðs við ESA um fyrirhugaðar breytingar á viðmiðunartilboði Mílu um bitastraumsaðgang, m.a. að því er varðar skilmála fyrir notkun ofangreindra heildsöluskipta. Einnig er stefnt að ákvörðun í því máli í lok júlí. Hið nýja viðmiðunartilboð mun ef allt fer að óskum einnig taka gildi frá 1. ágúst nk.

Þá er PFS að leggja lokahönd á markaðsgreiningu á heildsölumarkaði fyrir bitastraumsaðgang (markaður 5). Stefnir PFS að samráði við ESA á næstu dögum, þannig að endanleg ákvörðun á þeim markaði gæti litið dagsins ljós í ágúst nk. Þar hyggst PFS mæla fyrir um að Míla afhendi PFS nýja heildræna kostnaðargreiningu á bitastraumsþjónustu sinni innan 6 mánaða frá birtingu ákvörðunar. Því má búast við því að endurskoðuð verð á bitastraumsþjónustu Mílu líti dagsins ljós á fyrri hluta næsta árs.

Drög að ofangreindri ákvörðun eru nú send til ESA og annarra eftirlitsstofnana á EES-svæðinu með vísan til 7. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. ESA og aðrar eftirlitsstofnanir hafa einn mánuð til að setja fram athugasemdir við ákvörðunardrögin. Eftir það getur PFS formlega tekið ákvörðun nema fram komi óskir frá ESA um að PFS dragi ákvörðunardrögin til baka. Ekki er gert ráð fyrir því að innlendir hagsmunaðilar geri athugasemdir við ákvörðunardrögin að þessu sinni.

Sjá samráðsskjölin á íslensku og ensku:

Skjölin á íslensku
 Skjölin á ensku
 Kostnaðargreining á aðgangsleið 1 og 3.pdf  Cost Analysis of bitsream access Option 1 and 3.pdf
 Viðauki I Heildsöluverð fyrir bitastraumsaðgang.pdf  Appendix I Wholesale prices bitstream access.pdf
 Viðauki II Athugasemdir úr samráði.pdf  Appendix II Conclusions of the PTA National Consultation.pdf
 Viðauki III Samráðsskjal í aukasamráði.pdf  Appendix III Additional Consultation.pdf
 Viðauki IV Athugasemdir úr aukasamráði.pdf  Appendix IV Conclusion of Additional Consultation.pdf

 

Til baka