Hoppa yfir valmynd

PFS endurnýjar tíðniheimild Fjarskipta hf. fyrir sjónvarpsþjónustu á 2,6 GHz tíðnisviðinu

Tungumál EN
Heim

PFS endurnýjar tíðniheimild Fjarskipta hf. fyrir sjónvarpsþjónustu á 2,6 GHz tíðnisviðinu

25. júní 2014

Póst- og fjarskiptastofnun hefur ákveðið að gefa út endurnýjaða tíðniheimild til handa Fjarskiptum hf. (Vodafone) til notkunar á 2,6 GHz tíðnisviðinu fyrir MMDS stafrænar sjónvarpsútsendingar Vodafone Digital Ísland á örbylgju. Heimildin hefur gildistíma til ársloka 2016. Um er að ræða 23 rásir sem hver er með 8 MHz bandbreidd, eða samtals 184 MHz.

Ákvörðunin er tekin að undangengnu samráði við hagsmunaaðila sem kallað var eftir þann 4. október sl. Í samráðsskjalinu var farið yfir sögulega nýtingu tíðnisviðsins, samræmingaráætlun Evrópusambandsins, sem gerir ráð fyrir háhraða farnetsþjónustu á tíðnisviðinu, samráð um tíðnistefnu PFS frá 2011 og niðurstöður uppboðs á 800 MHz og 1800 MHz tíðnisviðunum sem haldið var í febrúar í fyrra. Einnig voru sett fram þau sjónarmið sem PFS hygðist líta til við mat á hagsmunum fjarskiptafyrirtækja og neytenda.

Í júní 2011 birti PFS ákvörðun sína nr. 18/2011 þar sem núgildandi tíðniheimild Fjarskipta var endurnýjuð til þriggja ára, þ.e. til 27. júní 2014. Sú ákvörðun var einnig tekin að undangengnu samráði við hagsmunaaðila. Í þeirri ákvörðun var tilgreindur sá möguleiki að félagið fengi að halda hluta tíðnisviðsins fyrir MMDS þjónustu að gildistíma loknum, yrði þess óskað, og ef samráð um tíðnistefnu stofnunarinnar leiddi ekki í ljós að sóst yrði eftir öllu tíðnisviðinu fyrir háhraða farnetsþjónustu. Þessi niðurstaða PFS var staðfest af úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála með úrskurði í máli nr. 3/2011, að því þó viðbættu að úttekt á hagsmunum neytenda og fjarskiptafyrirtækja leiddi í ljós að slík framlenging tíðniheimildarinnar væri réttlætanleg.

Fjarskipti hf. óskuðu eftir framlengingu á núgildandi tíðniheimild sinni til ársins 2020. Í samræmi við ákvæði 9. gr. fjarskiptalaga, framangreinda ákvörðun stofnunarinnar frá 2011 og úrskurð úrskurðarnefndar, kallaði PFS eftir samráði við hagsmunaaðila um nýtingu á 2,6 GHz tíðnisviðinu þann 4. október sl.

Niðurstöður samráðsins liggja nú fyrir og er það mat PFS að þrátt fyrir mikinn vöxt og þróun háhraða farnetsþjónustu (4G/LTE) sé í dag ekki skortur á tíðnisviði fyrir veitingu slíkrar þjónustu. Hins vegar kom skýrt fram í svörum hagsmunaaðila að slíkur skortur geti myndast innan fárra ára. Hefur PFS því tekið ákvörðun um að endurnýja tímabundið heimild Fjarskipta hf. til að nýta 2,6 GHz tíðnisviðið fyrir MMDS sjónvarpsþjónustu á Suður- og SV-landi til 31. desember 2016.

Tíðniheimild Fjarskipta hf. til nokunar tíðna á 2,6 GHz tíðnisviðinu

Niðurstöður samráðs PFS við hagsmunaaðila frá 4. október 2013 um nýtingu 2,6 GHz (2.500-2.690 MHz) tíðnisviðsins

 

Til baka