Hoppa yfir valmynd

Fjarskiptanotkun á Íslandi svipuð og í nágrannalöndunum

Tungumál EN
Heim

Fjarskiptanotkun á Íslandi svipuð og í nágrannalöndunum

26. júní 2014

Í dag kemur út skýrsla sem Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) og systurstofnanir hennar á Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndunum hafa tekið saman um notkun helstu þátta fjarskiptaþjónustu og þróun undanfarinna ára í löndunum átta. Þetta er fimmta árið í röð sem fjarskiptanotkun íbúa Norðurlandanna er borin saman og nú hafa Eystrasaltslöndin einnig bæst í hópinn, Eistland og Litháen í fyrra og nú Lettland.

Á heildina litið er fjarskiptanotkun mjög lík í þessum löndum og íbúar þeirra nýta sér sambærilega tækni á svipaðan máta. Þrátt fyrir það má þó víða sjá mun á notkun og þróun einstakra þátta.

Íslendingar eru með flestar fastar háhraða internettengingar miðað við höfðatölu fyrir auglýstan niðurhalshraða 30 Mb/sek. eða meira. Ástæðuna má rekja til fjölgunar VDSL og ljósleiðaratenginga. Aftur á móti erum við með næstminnstu gagnanotkunina í farnetum ef litið er eingöngu til Norðurlandanna fimm, sem hafa verið með í samanburðinum frá upphafi. Í því sambandi ber þess að geta að útbreiðsla þriðju og fjórðu kynslóða farneta hófst síðar hér en á hinum Norðurlöndunum.

Á Íslandi eru einnig fæstar áskriftir í farnetum miðað við höfðatölu. Þar eru Finnar langefstir. Athygli vekur að þegar litið er til áskrifta í farnetum hefur hin mikla fjölgun undanfarinna ára nokkurn veginn stöðvast og fjöldinn staðið í stað í flestum landanna átta frá 2012.

Varðandi þróunina í sjónvarpsdreifingu yfir internetið (IPTV) skera Íslendingar sig úr og eru með langflestar áskriftir miðað við höfðatölu, enda hefur hvorki kapalsjónvarp né sjónvarp um gervitungl verið staðar í sama mæli hér á landi eins og í samanburðarlöndunum.

Þegar litið er á samanburðinn í heild er athyglisvert að Íslendingar eru fastheldnastir íbúa á samanburðarsvæðinu á heimasíma. Við tölum einnig lengur í heimasíma en aðrir, þótt mínútunum fækki jafnt og þétt. Íslendingar nota einnig farsímann hlutfallslega mikið til að tala, en senda aftur á móti færri SMS en tíðkast í flestum hinna landanna. Aðeins Eistar nota SMS skilaboð minna en Íslendingar.

Sjá skýrsluna í heild (á ensku):

Telecommunication Markets in the Nordic and Baltic Countries 2013

Tölfræðina má einnig skoða í gagnagrunni hennar sem geymdur er hjá systurstofnun PFS í Svíþjóð, Post- og telestyrelsen: http://statistik.pts.se/PTSnordic/NordicCountries2013/

Hér á vefnum má einnig nálgast allar norrænu samanburðarskýrslurnar frá upphafi á einum stað.

 

Til baka