Hoppa yfir valmynd

Samráð við ESA um breytingar á viðmiðunartilboði Mílu fyrir bitastraumsaðgang

Tungumál EN
Heim

Samráð við ESA um breytingar á viðmiðunartilboði Mílu fyrir bitastraumsaðgang

26. júní 2014

Í dag sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) drög að ákvörðun varðandi breytingu á viðmiðunartilboði Mílu um bitastraumsaðgang. Um er að ræða beiðni Mílu um að fá að veita frekari þjónustu á heildsöluskiptum en þá sem varðar aðgangsleið 1 í bitastraumi og kveðið var á um í ákvörðun PFS nr. 38/2012 um aðgangsleið 1.

Með framangreindri ákvörðun PFS frá 2012 var leyst úr ágreiningi Vodafone og Símans (nú Mílu) um aðgang Vodafone að umræddri aðgangsleið 1. Var niðurstaða PFS sú að sérstaka heildsöluskipta þyrfti til að slíkur aðgangur yrði að veruleika, m.a. vegna öryggissjónarmiða. Ennfremur þyrfti Vodafone, sem og önnur fjarskiptafyrirtæki sem áhuga hefðu á umræddri aðgangsleið, að taka þátt í kostnaði vegna slíks fyrirkomulags.

Í janúar sl. barst PFS ábending um að Síminn, systurfélag Mílu, hefði fengið aðgang að hluta umræddra heildsöluskipta vegna annarra þjónustu en aðgangsleiðar 1, án þess að ótengdum aðilum hafi staðið slíkt til boða eða viðmiðunartilboð Mílu um bitastraumsaðgang verið uppfært með tilliti til þessa nýja vöruframboðs. Beindi PFS þeim tilmælum til Mílu strax í kjölfarið að félagið veitti ekki frekari tengingar við umrædda heildsöluskipta til annarra nota en aðgangsleiðar 1 þar til PFS hefði tekið ákvörðun um breytingu á viðmiðunartilboði Mílu. Þess má geta að PFS er með sérstakt mál til meðferðar þar sem skoðað er hvort Míla hafi með þessu brotið gegn jafnræðis- og/eða gagnsæiskvöðum þeim sem á félaginu hvíla.

Þann 7. febrúar sl. óskaði Míla eftir því að PFS samþykkti breytingar á umræddu viðmiðunartilboði sem gerði ráð fyrir umræddu viðbótarvöruframboði á heildsöluskiptum. Þann 21. febrúar sl. efndi PFS til innanlandssamráðs um umræddar breytingar. Athugasemdir bárust frá þremur aðilum, Símanum, Vodafone og Símafélaginu. Athugasemdir Símans snéru aðeins að verðum fyrir þjónustuna. Athugasemdir Vodafone voru neikvæðar í garð umræddra breytinga en athugasemdir Símafélagsins voru jákvæðar.

Það er fyrirhuguð niðurstaða PFS að heimila Mílu veitingu framangreindrar viðbótarþjónustu á heildsöluskipum frá og með þeim tíma sem endanleg ákvörðun liggur fyrir með tilteknum skilyrðum. Þá leggur PFS til nokkrar breytingar á skilmálum þjónustunnar. Nánar tiltekið:

  • Mílu skal heimilt að veita fjölbreyttari þjónustu á heildsöluskiptum en einungis þá er varðar aðgangsleið 1 fyrir bitastraumsaðgang sé það gert með gagnsæjum hætti og fulls jafnræðis gætt milli fjarskiptafyrirtækja. Þar getur m.a. verið um að ræða beinar fyrirtækjatengingar, tengingar við farsímasenda og stofntengingar við IP net.
  • Míla skal tryggja viðskiptavinum sínum í aðgangsleið 1 þá afkastagetu sem þörf er á hverju sinni svo þeir geti þjónustað xDSL viðskiptavini sína með fullnægjandi hætti. 
  • Aðgangsbeiðendum stendur til boða að kaupa eina eða fleiri VoIP tengingar. Sama einingaverð skal gilda fyrir sérhverja tengingu. 
  • Það skilyrði að viðsemjandi Mílu geti einungis selt margvarp (e. multicast) og VoIP til endanotenda fellur brott. Því verður unnt að framselja slíka þjónustu í heildsölu til annarra fjarskiptafyrirtækja.
  • Hið almenna 3 mánaða uppsagnarákvæði viðmiðunartilboðs Mílu um bitastraumsaðgang skal einnig gilda um heildsöluskipta, en ekki sá 3 ára uppsagnarfrestur sem Míla lagði til.
Mál þetta er tengt því máli sem PFS sendi til ESA til samráðs þann 20. júní sl. og varðar kostnaðargreiningu á verðskrá fyrir bitastraumsaðgang, m.a. vegna heildsöluskipta á aðgangsleið 1. Þar er m.a. gert ráð fyrir því að bráðabirgðaverð þau sem kveðið var á um í fyrrnefndri ákvörðun PFS nr. 38/2012 skuli lækka verulega, m.a. vegna framangreindrar aukinnar notkunar á heildsöluskiptum, og að uppgjör þurfi að fara fram á milli Mílu og þeirra fjarskiptafyrirtækja sem keypt hafa umrædda þjónustu vegna verðmismunarins.

Búast má við því að endanlegar ákvarðanir PFS í umræddum málum líti dagsins ljós í lok júlí nk. geri ESA ekki verulegar athugasemdir við ákvörðunardrögin.

Drög að ofangreindri ákvörðun eru nú send til ESA og annarra fjarskiptaeftirlitsstofnana á EES-svæðinu með vísan til 7. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Þessir aðilar hafa einn mánuð til að setja fram athugasemdir við ákvörðunardrögin. Eftir það getur PFS formlega tekið ákvörðun nema fram komi óskir frá ESA um að PFS dragi ákvörðunardrögin til baka. Ekki er gert ráð fyrir því að innlendir hagsmunaaðilar geri athugasemdir við ákvörðunardrögin að þessu sinni.

Sjá ákvörðunardrögin á íslensku og ensku:

M5 -  Drög að ákvörðun nr. xx/2014 um nýja þjónustu Mílu á heildsöluskiptum

M5 - PTA Draft Decision no. xx/2014 - On the new Mila service for access nodes

Til baka