Hoppa yfir valmynd

PFS samþykkir beiðni Mílu um veitingu nýrra tegunda bitastraumsþjónustu

Tungumál EN
Heim

PFS samþykkir beiðni Mílu um veitingu nýrra tegunda bitastraumsþjónustu

30. júní 2014

Með ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 13/2014 hefur stofnunin veitt Mílu heimild til að hefja veitingu nýrra tegunda bitastraumsþjónustu áður en endanleg ákvörðun PFS um skilmála og verð fyrir þjónustuna liggur fyrir. Nánar tiltekið er um að ræða breytingar á viðmiðunartilboði félagsins um bitastraumsaðgang að því er varðar aðgang að VDSL+ fyrirtækjatengingum vegna aðgangsleiða 1 og 3 annars vegar og hins vegar aðgang að lénum og tengiskilum vegna samtengingar fjarskiptafyrirtækja við xDSL og GPON kerfi Mílu vegna aðgangsleiðar 3. Um er að ræða nýja viðauka við umrætt viðmiðunartilboð, þ.e. viðauka 6 og 7.

Til að internetþjónustuaðilar geti boðið internetþjónustu sína yfir net Mílu í aðgangsleið 3 þarf að vera til staðar tenging milli internetþjónustuaðilans og burðarnetsins. Verður það gert með umræddum lénum og tengiskilum.

VDSL+ fyrirtækjatengingar henta fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki fyrir gagnaflutning og eru þær byggðar á samsvarandi tækni og ADSL+ sem verið hefur fáanleg um hríð. Þá kemur fram að hefji Míla veitingu slíkrar VDSL+ þjónustu skuli slík þjónusta einnig vera í boði á aðgangsleið 1 frá og með sama tíma.

Meginreglan er sú að Míla þarf að tilkynna PFS og markaðsaðilum um fyrirhugaða nýjar vörur í bitastraumi með a.m.k. þriggja mánaða fyrirvara. Í þessu máli er fyrirvarinn þó einungis rétt tæpar 7 vikur, en PFS taldi eins og hér var ástatt að ástæða væri til að stytta framangreindan þriggja mánaða frest eftir samráð við markaðsaðila. PFS beinir þeim tilmælum þó til Mílu að haga framboði nýrrar þjónustu í framtíðinni með umræddan þriggja mánaða frest í huga.

Þau verð sem um ræðir í fyrirhuguðum viðaukum við umrætt viðmiðunartilboð skulu gilda sem bráðabirgðaverð þar til endanleg verð hafa verið ákvörðuð af PFS og skal uppgjör vegna hugsanlegs verðmismunar fara fram innan mánaðar frá því að sú ákvörðun liggur fyrir. Búast má við því að endanleg ákvörðun í málinu liggi fyrir undir lok ársins.

Sjá ákvörðunina í heild:

Ákvörðun PFS nr. 13/2014 um VDSL+ fyrirtækjatengingar og lén og tengiskil vegna samtenginga á aðgangsleið 3

Til baka