Hoppa yfir valmynd

PFS veitir Vodafone og Nova heimild til að samnýta tíðniheimildir

Tungumál EN
Heim
2. júlí 2014

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur nú birt ákvörðun sína, nr. 14/2014, sem veitir Fjarskiptum hf. (Vodafone) og Nova ehf. heimild til samnýtingar á tíðniheimildum félaganna fyrir veitingu 2G/GSM, 3G/UMTS og 4G/LTE þjónustu.

Þann 4. mars sl. boðaði stofnunin framangreinda ákvörðun og kallaði eftir samráði við hagsmunaaðila vegna hinnar fyrirhuguðu ákvörðunar. Í samráðsskjalinu kom fram að félögin höfðu óskað samþykkis stofnunarinnar fyrir fyrirhugaðri nýtingu með erindum frá nóvember 2013 og febrúar 2014. Félögin hyggja á stofnun félags, í jafnri eigu félaganna, sem mun hafa með höndum eignarhald, uppbyggingu og þróun dreifikerfis fyrir alla almenna farsímaþjónustu félaganna. Er ætlunin með samstarfinu þríþætt:

i) vinna sameiginlega að innleiðingu heildstæðs dreifikerfis á landsvísu,
ii) að nýta tækniframfarir til að ná fram umtalsverðri hagræðingu í fjárfestingar- og rekstrarliðum
iii) að byggja upp eitt heilsteypt landsdekkandi dreifikerfi fyrir 2G/GSM, 3G/UMTS og 4G/LTE farsíma- og netþjónustu.

Samnýting tíðniheimilda er ein meginforsenda fyrir því að umrætt samstarf geti orðið að veruleika og óskuðu félögin því eftir þessari heimild Póst- og fjarskiptastofnunar.

Jafnframt ákvörðuninni birtir stofnunin nú niðurstöður fyrrnefnds samráðs, en líkt og rakið er í samráðsskjalinu leiddi það ekki til þess að forsendur stofnunarinnar fyrir veitingu heimildar breyttust frá því sem boðað var í samráðsskjali stofnunarinnar frá 4. mars sl.

Að mati Póst- og fjarskiptastofnunar telst fyrirhuguð samnýting tíðniheimilda ekki fela í sér framsal á þeim réttindum sem tíðniheimildirnar veita félögunum, en bann er lagt við slíku framsali  í 2. mgr. 7. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003. Þá leiða ákvæði tíðniheimildanna sjálfra ekki til þess að samnýting þeirra sé óheimil.

Telur stofnunin að almennt séð, og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, verði fyrirhugað samstarf Vodafone og Nova jákvætt fyrir íslenskan fjarskiptamarkað m.t.t. skilvirkni í uppbyggingu og rekstri fjarskiptaneta og þjónustu við neytendur.

Taka ber fram að fyrirhugað samstarf félaganna er jafnframt háð samþykki Samkeppniseftirlitsins og hafa félögin óskað eftir undanþágu frá bannákvæðum samkeppnislaga, nr. 44/2005 sbr. 15. gr. þeirra. 

Sjá nánar:

Ákvörðun PFS nr. 14/2014

Viðauki við ákvörðun 14/2014: Niðurstöðuskjal úr samráði PFS við hagsmunaaðila.

Til baka