Hoppa yfir valmynd

PFS samþykkir beiðni Mílu um veitingu nýrrar tegundar stofnleigulínuþjónustu

Tungumál EN
Heim
4. júlí 2014

Með ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 15/2014 hefur stofnunin veitt Mílu heimild til að hefja veitingu nýrrar tegundar stofnleigulínuþjónustu áður en endanleg ákvörðun PFS um skilmála og verð fyrir þjónustuna liggur fyrir. 

Nánar tiltekið er um að ræða Ethernet stofnleigulínuþjónustu sem byggir á MPLS-TP tækni. Eins og Míla leggur hina nýju vöru upp hefur hún fjölbreyttari eiginleika en hefðbundin leigulínusambönd, uppfyllir síauknar þarfir fjarskiptamarkaðarins fyrir meiri bandvídd, áhrif vegalengda eru verulega minnkuð í verðskrá og ódýrara verður fyrir viðskiptavini Mílu að kaupa bandbreið sambönd. Þannig gæti þjónustan hentað fyrir samtengingu IP-neta og sem burðarnet fyrir 4G farsímaþjónustu. Auk þess er þjónustunni ætlað að vera undirstaða undir aðgangsleið 2 í bitastraumi sem Mílu ber að bjóða upp á auk aðgangsleiða 1 og 3 sem félagið býður nú þegar upp á.   

Míla kynnti umrædda þjónustu á heimasíðu sinni þann 4. apríl sl. Í dag er því sá þriggja mánaða frestur liðinn sem kveðið er á um í viðmiðunartilboði Mílu fyrir leigulínur að líða þurfi á milli fyrstu kynningar þar til fyrst er heimilt að veita þjónustuna.   

Míla skal á næstu vikum vinna að frekari þróun vörunnar í takt við sanngjarnar, eðlilegar og málefnalegar þarfir og óskir viðskiptavina félagsins. Míla skal tryggja fullt jafnræði á milli fjarskiptafyrirtækja við þá þróun, m.a. varðandi ákvörðun um frekari útbreiðslu þjónustunnar, en hún er í upphafi takmörkuð við nánar tiltekin svæði. Eðlilegt er þá að fyrst og fremst sé horft til hagkvæmnissjónarmiða og eftirspurnar eftir þjónustunni á hinum ýmsu svæðum. 

Míla skal afhenda PFS sérstakan viðauka við viðmiðunartilboð félagsins fyrir leigulínur sem hefur að geyma þá skilmála sem gilda skulu fyrir umrædda þjónustu eigi síðar en 1. september nk. Sú vörulýsing sem Míla birti á heimasíðu sinni þann 4. apríl sl. getur þá orðið grunnur að umræddum viðauka, að teknu tilliti til hugsanlegrar þróunar vörunnar fram til 1. september nk.

Þar til endanleg ákvörðun PFS liggur fyrir um skilmála þjónustunnar skal framangreind þjónustulýsing sem auglýst var á heimasíðu Mílu gilda. 

Þau verð sem um ræðir í fyrrgreindri þjónustulýsingu skulu gilda sem bráðabirgðaverð þar til endanleg verð hafa verið ákvörðuð af PFS og skal uppgjör vegna hugsanlegs verðmismunar fara fram innan mánaðar frá því að sú ákvörðun liggur fyrir. Búast má við því að endanleg ákvörðun í málinu liggi fyrir undir lok ársins.

Ákvörðun PFS nr. 15/2014 (pdf)

Til baka