Hoppa yfir valmynd

Samráð við ESA um markaðsgreiningar á heimtauga- og breiðbandsmörkuðum

Tungumál EN
Heim
11. júlí 2014

Í dag sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) drög að ákvörðun er lýtur að markaðsgreiningum á heimtauga- og breiðbandsmörkuðum. Annars vegar er um að ræða markað fyrir heildsöluaðgang að föstum aðgangsnetum (markaður 4) og hins vegar fyrir breiðbandsaðgang í heildsölu (markaður 5).

PFS hyggst viðhalda útnefningu Mílu, sbr. ákvörðun stofnunarinnar nr. 26/2007, sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á heimtaugamarkaði (markaður 4) og álagningu viðeigandi kvaða á félagið. Þrátt fyrir innkomu Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. og fleiri staðbundinna netrekenda er markaðshlutdeild Mílu enn um 83% og eru enn verulegar aðgangshindranir ríkjandi á viðkomandi markaði að mati PFS.

Þá hyggst PFS útnefna Mílu sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á markaði fyrir breiðbandsaðgang í heildsölu (markaður 5) og leggja viðeigandi kvaðir á félagið til að efla samkeppni. Með ákvörðun PFS nr. 8/2008 var Síminn hf. útnefndur sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi markaði. Í kjölfar sáttar móðurfélags Símans og Mílu, Skipta, og Samkeppniseftirlitsins árið 2013 fluttist sú breiðbandsstarfsemi samstæðunnar frá Símanum til Mílu. Míla hefur langstærstu markaðshlutdeildina á viðkomandi heildsölumarkaði eða með um 76% markaðshlutdeild þegar innri sala er ekki talin með.

Markaður 4 nær yfir aðgang að kopar og ljósleiðaraheimtaugum, bæði skiptan og óskiptan aðgang. Markaðurinn nær því yfir áþreifanlega innviði fjarskiptanetanna; heimtaugarnar sjálfar, tengivirki, magnara o.fl. Á heimtaugarnar er hægt að bæta við ýmsum tæknilegum kerfum þar sem hin eiginlega þjónustuframleiðsla fer fram. Sú þjónusta krefst þess að endanotendur geti bæði sent og móttekið gögn. Þessa þjónustu sem fer fram á netinu, t.d. internetið, tölvupóstur, sjónvarpsdreifing (IPTV) og fleira, er síðan öðru fremur fjallað um á markaði 5. Ekki er nægilegt að hafa aðgang að heimtaug til að koma á breiðbandsþjónustu. Að sama skapi er nauðsynlegt að hafa aðgang að einhvers konar fjarskiptainnviðum til að koma á breiðbandsþjónustu. Þess vegna eru þessir markaðir háðir hvor öðrum og greindir saman.

PFS hyggst, eins og að ofan greinir, leggja viðeigandi kvaðir á Mílu á viðkomandi mörkuðum til að efla samkeppni í fjarskiptum. Um er að ræða aðgangskvöð, jafnræðiskvöð, gagnsæiskvöð, kvöð um bókhaldslegan aðskilnað, kvöð um eftirlit með gjaldskrá og kvöð um færslu kostnaðarbókhalds.

Drög að ofangreindum ákvörðunum eru nú send til ESA og annarra eftirlitsstofnana á EES-svæðinu með vísan til 7. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. ESA og aðrar eftirlitsstofnanir hafa einn mánuð til að setja fram athugasemdir við ákvörðunardrögin. Eftir það getur PFS formlega tekið ákvörðun um viðkomandi markaði nema fram komi óskir frá ESA um að PFS dragi ákvörðunardrögin til baka. Ekki er gert ráð fyrir því að innlendir hagsmunaðilar geri athugasemdir við ákvörðunardrögin að þessu sinni, en upphaflegt innanlandssamráð fór fram vorið 2013 og aukasamráð í kringum síðustu áramót.

Samráðsskjölin á íslensku og ensku (PDF skjöl) :

Skjölin á íslensku
Skjölin á ensku
Drög að ákvörðun M4 - M5
Draft decision M4 - M5
Viðauki A - Greining
Appendix A - Analysis
Viðauki B1 - Niðurstöður innanl.samráðs
Appendix B1 - Consultation conclusions
Viðauki B2 - Aukasamráðsskjal
Appendix B2 - Additional consultation
Viðauki B3 - Niðurstöður aukasamráðs
Appendix B3 - Conclusions from additional consultation

 

Til baka