Hoppa yfir valmynd

PFS kallar eftir samráði við hagsmunaaðila um fyrirhugaða vigrun á Ljósveitutengingum Mílu

Tungumál EN
Heim
23. júlí 2014

Póst- og fjarskiptastofnun kallar eftir samráði við hagsmunaaðila um fyrirhugaða vigrun á Ljósveitutengingum Mílu.  Samráðsskjalið hér fyrir neðan inniheldur drög að nýjum viðauka við viðmiðunartilboð Mílu um bitastraumsaðgang vegna fyrirhugaðrar virkjunar vigrunartækni (e. vectoring) á Ljósveitutengingum félagsins síðar á árinu. Um er að ræða fyrirhugaðan viðauka 2a sem ber yfirskriftina „Tækniskilmálar“.

Þar kemur m.a. fram að milliheyrsla (e. crosstalk) frá öðrum DSL línum sé ein helsta ástæða truflana og þess að hraði á VDSL tengingum lækkar eftir því sem fleiri nota tæknina. Vigrun er tækni sem eyðir milliheyrslu á milli VDSL tenginga sem fara um sama línubúnt. Þetta gerir það að verkum að merkið verður svipað því og tengingin væri ein á línubúntinu. Til þess að það sé hægt í dag verða öll VDSL merki á línubúnti að koma frá sama búnaði í símstöð eða götuskáp. Einnig verður endabúnaður að styðja tæknina eða í það minnsta ekki valda truflunum.

Hér með er óskað viðbragða hlutaðeigandi aðila við óskum Mílu um framangreinda breytingu á viðmiðunartilboði félagsins um bitastraumsaðgang.

Athugasemdir skulu berast með pósti eða með tölvupósti til Póst- og fjarskiptastofnunar, stílaðar á Guðmann B. Birgisson (gudmann(hjá)pfs.is) ekki síðar en 20. ágúst nk.

Sjá samráðsskjal:

Viðauki 2a við viðmiðunartilboð Mílu um bitastraumsaðgang - Tækniskilmálar

 

Til baka