Hoppa yfir valmynd

PFS samþykkir beiðni Íslandspósts um hækkun á gjaldskrá fyrir bréf innan einkaréttar

Túngumál EN
Heim

PFS samþykkir beiðni Íslandspósts um hækkun á gjaldskrá fyrir bréf innan einkaréttar

23. júlí 2014

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 16/2014 þar sem stofnunin samþykkir, að hluta til, beiðni Íslandspósts hf. um hækkun gjaldskrár fyrir bréf innan einkaréttar.
Beiðni Íslandspósts var um hækkun sem næmi á bilinu 19-26% eftir því um hvaða þjónustuflokk var að ræða. Það er á hinn bóginn mat PFS að tilgreindar forsendur Íslandspósts fyrir verðhækkun séu ekki að öllu leyti fyrir hendi og því geti stofnunin ekki samþykkt hækkunarbeiðni félagsins óbreytta.

Niðurstaða stofnunarinnar er að forsendur séu fyrir því að gjaldskrá fyrir bréf innan einkaréttar hækki um 11,5%.

Eftir hækkun verður þá verð, á þeim flokkum bréfa sem tilheyra einkarétti, eftirfarandi:

A póstur - 145 kr.
B póstur - 125 kr.
AM póstur - 107 kr.
BM póstur - 87 kr.

Byggir hækkunin fyrst og fremst á að þær forsendur um magnminnkun á árinu 2014, sem gengið var út frá í ákvörðun PFS nr. 32/2013 hafa ekki gengið eftir, en þar var miðað við 5% samdrátt. Rauntölur fyrstu fimm mánuði ársins benda hins vegar til að samdrátturinn á þessu ári verði um 12%. Auk þess er horft til kostnaðarhækkana á árinu sem orðið hafa umfram áætlanir.

Ef litið er á gjaldskrá Íslandspósts og hún borin saman við sambærilegar gjaldskrár á Norðurlöndunum kemur í ljós að fyrirtækið er með næst ódýrustu þjónustuna fyrir A póst og þriðju ódýrustu þjónustuna fyrir B póst, ef miðað er við jafnvirðisgildi (PPP). (Sjá samanburðartöflur á bls. 9 í ákvörðun PFS).

Nánari rökstuðning fyrir samþykkt PFS á beiðni Íslandspósts er að finna í ákvörðuninni sjálfri:

Ákvörðun PFS nr. 16/2014 um hækkun á gjaldskrá Íslandspósts ohf., á bréfum innan einkaréttar (PDF)

 

Til baka