Hoppa yfir valmynd

PFS bregst við þörfum fyrir aukið 3G tíðnisvið vegna stórra mannamóta

Túngumál EN
Heim

PFS bregst við þörfum fyrir aukið 3G tíðnisvið vegna stórra mannamóta

8. ágúst 2014

Í dag úthlutaði Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) tímabundið auknu 3G tíðnisviði til Nova og Símans vegna þess álags á fjarskiptakerfi sem fylgir viðburðum þar sem mikill fjöldi fólks kemur saman.

Ágúst er mánuður hinna stóru mannamóta og útihátíða þar sem fjöldi fólks safnast saman á tiltölulega litlu svæði. Sem dæmi má nefna Þjóðhátíð í Eyjum, Hinsegin daga, Menningarnótt, Fiskidaginn mikla á Dalvík og Ljósanótt í Reykjanesbæ sem fylgir í kjölfarið í byrjun september.

Mannamót sem þessi hafa í för með sér mikla notkun á farsímum og með tilkomu snjallsíma eru gagnasamskipti sífellt að aukast, ekki síst til að hlaða upp myndum og upptökum. Þessi mikla notkun á litlu svæði veldur auknu álagi í fjarskiptakerfum og borið hefur við að tíðnisvið og búnaður sem við venjulegar aðstæður nægja til að anna þörfum notenda dugar ekki lengur.

Fjarskiptafélögin hafa lagt í mikla vinnu við endurhönnun kerfa sinna og bætt við sendibúnaði á stöðum þar sem slíkt tímabundið álag er fyrirséð en iðulega dugar það ekki til og þörf er á stærra tíðnisviði en félögin hafa til umráða. Til að koma til móts við þessar þarfir fjarskiptafélaganna og viðskiptavina þeirra hefur Póst- og fjarskiptastofnun því í dag úthlutað tímabundið auknu tíðnisviði fyrir 3G þjónustu til þeirra tveggja aðila sem óskað hafa eftir slíku, þ.e. Nova og Símans.

 

Til baka