Póst og fjarskiptastofnun

Túngumál EN
Heim

PFS óskar umsagna vegna beiðna Íslandspósts um heimildir til fækkunar dreifingardaga í dreifbýli

12. september 2014

Póst- og fjarskiptastofnun hefur ákveðið að kalla eftir umsögnum hagsmunaaðila vegna erinda frá Íslandspósti ohf. til stofnunarinnar, dags. 23. júní 2014 þar sem farið er fram á heimild til að fækka dreifingardögum pósts úr fimm niður í þrjá til bæja sem tilheyra dreifbýli í nágrenni tiltekinna þéttbýlisstaða á landinu.

Alls er um að ræða níu aðskildar umsóknir sem taka til þjónustu Íslandspósts við 126 heimili. (Hverja umsókn er hægt að skoða sérstaklega sem pdf. skjal hér fyrir neðan.) Um er að ræða dreifða byggð í nálægð við eftirtalda staði:

Þéttbýlisstaður
Fjöldi bæja í dreifbýli
Bolungarvík 6
Kópasker 3
Raufarhöfn 6
Neskaupstaður 23
Eskifjörður 5
Reyðarfjörður 2
Fáskrúðsfjörður 15
Breiðdalsvík 33
Djúpivogur 33

 

Samhliða þessari tilkynningu stofnunarinnar fá viðkomandi sveitarstjórnir bréf þar sem vakin er athygli á samráðinu.

Íslandspóstur fer með einkarétt ríkisins á dreifingu bréfa undir 50 gr. Samhliða einkaréttinum er fyrirtækinu falið að veita svokallaða alþjónustu um allt land.

Í 21. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002 er kveðið á um að Póst- og fjarskiptastofnun skuli tryggja að alls staðar á landinu sé alla virka daga borinn út póstur sem fellur undir skilgreiningu á alþjónustu, nema kringumstæður og landfræðilegar aðstæður hindri slíkt.

Ofangreind lagagrein er nánar útfærð í 10. gr. reglugerðar nr. 364/2003 um alþjónustu og framkvæmd póstþjónustu, sem hljóðar svo:
„Rekstrarleyfishafi, sem fengið hefur leyfi til að starfrækja póstþjónustu sem fellur undiralþjónustu og á hafa verið lagðar kvaðir samkvæmt rekstrarleyfi um að veita alþjónustu á landinu eða á ákveðnu svæði, skal bera út póst alla virka daga til heimila og fyrirtækja á landinu öllu eða á viðkomandi svæði eftir því sem við á.
Telji rekstrarleyfishafi að kringumstæður eða landfræðilegar aðstæður valdi því að útburður pósts alla virka daga sé verulegum erfiðleikum bundinn á tilteknum stöðum er honum heimilt að senda Póst- og fjarskiptastofnun rökstudda umsókn um undanþágu frá ákvæðum 1. mgr. Við mat sitt á umsókninni skal Póst- og fjarskiptastofnun taka tillit til annars vegar mikilvægi póstþjónustu fyrir þá aðila sem í hlut eiga og hins vegar erfiðleika og kostnað við útburð, svo sem vegna fjarlægðar eða lélegs vegasambands.
Ekki er skylda til að bera út póst í sumarhús eða á svæðum sem teljast til hálendis.“
Þess er óskað að umsagnir berist Póst- og fjarskiptastofnun fyrir 3. október nk. Stofnunin mun í framhaldinu taka afstöðu til erindis Íslandspósts og birta ákvörðun sína.


Til baka