Hoppa yfir valmynd

Samráð við ESA um verðsamanburð vegna lúkningarverða í farsímanetum (markaður 7)

Túngumál EN
Heim

Samráð við ESA um verðsamanburð vegna lúkningarverða í farsímanetum (markaður 7)

24. september 2014

Í dag sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) drög að ákvörðun um heildsölugjaldskrá fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7) til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA. PFS hyggst mæla fyrir um að niðurstaða verðsamanburðar sem stofnunin hefur framkvæmt verði grundvöllur hámarks lúkningarverða Símans, Vodafone, Nova, IMC og Tals á árinu 2015. Framkvæmd og niðurstaða verðsamanburðarins er nánar tilgreind í ákvörðunardrögunum.

Drögin byggja á ákvörðun PFS nr. 3/2012 um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumörkuðum fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7).

Samkvæmt framangreindri ákvörðun PFS nr. 3/2012 skal jafna og lækka hámarks lúkningarverð, þ.e. verð sem farsímafyrirtæki tekur fyrir að ljúka símtali í sínu kerfi sem hefst í öðru kerfi. Lúkningarverð allra farsímarekenda hér á landi hafa verið jöfn frá 1. janúar 2013, en höfðu um árabil verið ójöfn og mun hærri en þau eru í dag. Skv. ákvörðuninni skal PFS framkvæma verðsamanburð til að ákvarða lúkningarverð og skal ákvörðunin birt eigi síðar en 1. nóvember ár hvert, að undangengnu innanlandssamráði og samráði við ESA. Niðurstaðan skal byggjast á meðalverði þeirra EES-ríkja sem beita þeirri aðferðarfræði við kostnaðargreiningu sem nánar er lýst í framangreindri ákvörðun PFS nr. 3/2012 og nánari grein er gerð fyrir í frumdrögunum hér fyrir neðan.

Núverandi lúkningarverð, sem gildir á árinu 2014, var ákvarðað með ákvörðun PFS nr. 25/2013 frá 31. október 2013 en þá kvað stofnunin á um að lúkningarverð skyldu lækkuð úr 4 kr./mín. í 1,64 kr./mín., frá og með 1. janúar 2014.

Niðurstaða PFS í þeim ákvörðunardrögum sem hér eru lögð fram er að frá og með 1. janúar 2015 til og með 31. desember 2015 skuli hámarks lúkningarverð vera 1,52 kr./mín. hjá öllum íslenskum farsímanetsrekendum, þ.e. Símanum, Vodafone, Nova, IMC og Tali.

Ákvörðunardrögin eru nú send til ESA og annarra eftirlitsstofnana á EES-svæðinu til samráðs í dag með vísan til 7. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun og 7. gr. rammatilskipunar ESB nr. 2002/21/EB. Umræddir aðilar hafa einn mánuð til að setja fram athugasemdir við ákvörðunardrögin. Eftir það getur PFS formlega tekið ákvörðun nema fram komi óskir frá ESA um að PFS dragi ákvörðunardrögin til baka. Ekki er gert ráð fyrir því að innlendir hagsmunaðilar geri athugasemdir við ákvörðunardrögin að þessu sinni.

Eftirfarandi drög að ákvörðun PFS voru send til ESA:

Draft Decision on wholesale tariff for call termination in individual mobile phone networks (Market 7)

Íslensk útgáfa af ákvörðunardrögunum:

Drög að ákvörðun um heildsölugjaldskrá fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7)


Til baka