Hoppa yfir valmynd

PFS kallar eftir samráði um endurskoðun á gjaldskrám Mílu á heildsölumarkaði fyrir stofnlínuhluta leigulína

Túngumál EN
Heim

PFS kallar eftir samráði um endurskoðun á gjaldskrám Mílu á heildsölumarkaði fyrir stofnlínuhluta leigulína

23. desember 2014

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið við yfirferð á kostnaðargreiningum Mílu ehf. á heildsölugjaldskrám á markaði fyrir stofnlínuhluta leigulína og kallar eftir samráði um niðurstöðu þeirra. Stofnunin hyggst samþykkja kostnaðargreiningar Mílu ehf. með þeim breytingum sem mælt er fyrir um í ákvörðunardrögum stofnunarinnar (sjá meðfylgjandi samráðsskjöl).

Niðurstaða kostnaðargreiningar á stofnlínuhluta leigulína er að mánaðarverð á leigulínum lækkar, mesta lækkunin er á stærri samböndum. Lækkunin skýrist að mestu leyti af tækniþróun og lækkun kostnaðar. Þá hefur Míla einnig aukið fjölda gagnaflutningshraða sem í boði eru. Eins og áður þá skiptist gjaldskráin í mánaðargjöld (línugjald og km-gjald) og stofngjöld. Lagt er til að stofngjöldin séu samræmd (um 96 þús. kr.) fyrir alla gagnaflutningshraða í samræmi við endurskoðað mat á kostnaði vegna uppsetninga á samböndum. Við það hækka stofngjöldin á sumum samböndum meðan önnur haldast óbreytt. Rétt er að benda á að tekjur af stofngjöldum koma til frádráttar í útreikningum á mánaðargjöldum og því leiðir þessi hækkun stofngjalda til lækkunar á mánaðargjöldum fyrir viðkomandi þjónustur.

Niðurstaða kostnaðargreiningar á Hraðbrautarsamböndum er að leigugjald fyrir 1 Gb/s haldist óbreytt 95 þús. kr. á mánuði, en leigugjald fyrir 10 Gb/s hækki úr 120 þús. kr. í 160 þús kr. á mánuði. Mánaðarverð Hraðbrautarsambanda eru föst og óháð vegalengdum en þau hafa verið í boði hjá Mílu á stöðum innan Höfuðborgarsvæðisins og á Suðurnesjum. Stofngjald fyrir Hraðbrautarsamband helst óbreytt 107 þús. kr. á tengingu.
Fyrirhugað er að verðskrár Mílu ehf. taki gildi við birtingu endanlegrar ákvörðunar í málinu. Eftir það innanlandssamráð sem hér er efnt til fara ákvörðunardrögin til samráðs við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA).

Hér með er fjarskiptafyrirtækjum og öðrum hagsmunaaðilum gefinn kostur á að gera athugasemdir vegna þeirra draga sem hér liggja fyrir, sbr. 6. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Allar athugasemdir skulu gerðar með greinanlegum hætti þar sem vísað skal í þá liði sem um ræðir. Þegar PFS hefur metið framkomnar athugasemdir og gert þær breytingar á frumdrögunum sem stofnunin telur nauðsynlegar mun PFS senda drögin til ESA til samráðs áður en endanleg ákvörðun verður tekin.
Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til 10. febrúar nk. Nánari upplýsingar veitir Hulda Ástþórsdóttir (netfang: hulda(hjá)pfs.is).

Samráðsskjölin:

 

Til baka