Hoppa yfir valmynd

PFS kallar eftir samráði um gjaldskrá og viðmiðunartilboð Mílu vegna Ethernetþjónustu

Túngumál EN
Heim

PFS kallar eftir samráði um gjaldskrá og viðmiðunartilboð Mílu vegna Ethernetþjónustu

23. desember 2014

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið við yfirferð á kostnaðargreiningu Mílu ehf. (Míla) á heildsölugjaldskrá vegna Ethernetþjónustu á markaði fyrir stofnlínuhluta leigulína og kallar eftir samráði um niðurstöðu hennar. Jafnframt eru drög Mílu að viðmiðunartilboði um Ethernetþjónustu, ásamt viðaukum, lögð hér fram til samráðs við hagsmunaaðila.

Í byrjun maí á þessu ári kynnti Míla nýja Ethernetþjónustu sem byggir á MPLS-TP tæknibúnaði Mílu. Með þessum búnaði getur Míla boðið pakkaskipta gagnaflutningsþjónustu sem byggir á Ethernet-tækni og hefur það umfram þá tækni sem Míla hefur hingað til notað (SDH) að hægt er að skilgreina meðal annars mismunandi forgangsröðun pakka, frátekna eða samnýtta bandvídd, forgangsröðun og VLAN-aðgreiningu. Míla er með þessu að auka fjölbreytni í þeirri þjónustu sem Míla veitir á þessum markaði.

Í júlí sl. heimilaði PFS Mílu að hefja veitingu þessarar nýju þjónustu með ákvörðun PFS nr. 15/2014. Á sama tíma var gefin út bráðabirgðagjaldskrá fyrir þjónustuna. Athygli er vakin á breytingu sem orðið hefur á gjaldskránni, sbr. viðauka I með ákvörðunardrögunum hér fyrir neðan.

Í drögum að gjaldskrá fyrir Ethernetþjónustu er gjaldskránni skipt í tvo flokka eftir staðsetningu tengistaða: Staðir á landshringnum og staðir utan landshrings. Í gjaldskránni er ekki sérstakt kílómetragjald líkt og í gjaldskrá fyrir hefðbundnar leigulínur (SDH) en samkvæmt drögunum fer mánaðargjald Ethernetþjónustunnar stighækkandi í þrem þrepum eftir því hvað tengileiðin er löng. Með gjaldskránni er stigið mikilvægt skref í þá átt að minnka áhrif vegalengdar á verð háhraðasambanda, sem koma landsbyggðinni sérstaklega til góða.

Stofnunin hyggst samþykkja kostnaðargreiningu Mílu ehf. með þeim breytingum sem fyrirtækið gerði í nýjustu uppfærslu greiningarinnar í samræmi við kröfur PFS (sjá meðfylgjandi drög að ákvörðun). Skilmálum Ethernetþjónustunnar er lýst í meðfylgjandi drögum að viðmiðunartilboði.
Fyrirhugað er að gjaldskrá Mílu ehf. taki gildi við birtingu endanlegrar ákvörðunar í málinu. Eftir það innanlandssamráð sem hér er efnt til fara ákvörðunardrögin til samráðs við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA).

Hér með er fjarskiptafyrirtækjum og öðrum hagsmunaaðilum gefinn kostur á að gera athugasemdir vegna þeirra draga sem hér liggja fyrir, sbr. 6. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Allar athugasemdir skulu gerðar með greinanlegum hætti þar sem vísað skal í þá liði sem um ræðir. Þegar PFS hefur metið framkomnar athugasemdir og gert þær breytingar á frumdrögunum sem stofnunin telur nauðsynlegar mun PFS senda drögin til ESA til samráðs áður en endanleg ákvörðun verður tekin.

Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til 10. febrúar nk.  Nánari upplýsingar veitir Hulda Ástþórsdóttir (netfang: hulda(hjá)pfs.is).

Samráðsskjöl (pdf skjöl):

 

Til baka