Hoppa yfir valmynd

PFS heimilar Íslandspósti að fækka dreifingardögum í dreifbýli

Tungumál EN
Heim
8. janúar 2016

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 34/2015, þar sem stofnunin heimilar Íslandspósti (ÍSP), að fækka dreifingardögum í dreifbýli í annan hvern virkan dag í stað daglegrar dreifingar. Gert er ráð fyrir að ef ÍSP nýtir sér þessa heimild muni breytingin hafa áhrif á helming þess A-pósts sem skylt er að dreifa daginn eftir móttöku. Það eru u.þ.b. 15% af öllum pósti sem telst til einkaréttar (0 - 50 gr.) og fellur undir alþjónustu.

Póstdreifing með þessum hætti yrði skipulögð þannig að dreift yrði á mánudegi, miðvikudegi og föstudegi aðra vikuna og á þriðjudögum og fimmtudögum hina vikuna, til skiptis.

Þjónustustigið verður eins og sést í eftirfarandi töflu:

 Þjónustustig  Fjöldi heimilisfanga  Hlutfall
 Alla virka daga  128.599  94,86%
 Annan hvern virkan dag  6.931  5,11%
 Tveir dagar í viku  43  0,03%
 Alls  135.573  100%

 

Með reglugerð nr. 868/2015 var fyrri reglugerð um alþjónustu frá 2003 breytt á þann veg að sett voru ákveðin kostnaðarviðmið um hvað gæti talist eðlilegur kostnaður við dreifingu í dreifbýli. Miðað var við að heimilt væri að fækka dreifingardögum í dreifbýli ef kostnaður væri þrefalt meiri en samskonar kostnaður í þéttbýli. Breytingin kom til viðbótar við fyrri heimild í reglugerðinni þar sem m.a. er talað um að hægt sé að veita undanþágu frá dreifingu alla virka daga ef kostnaður við dreifingu telst óhófleg byrði á alþjónustuveitanda. Í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar skilaði ÍSP, sem er núverandi alþjónustuhafi, inn umsókn um fækkun dreifingardaga á grundvelli reglugerðarinnar.
Útreikningar félagsins sýndu fram á að kostnaður félagsins í dreifbýli væru yfir þeim viðmiðunarmörkum sem sett eru í reglugerðinni, en kostnaðurinn var 69.902 kr. á ársgrundvelli að meðaltali á hvert heimilisfang.  Með þessum breytingum mun svokallaður alþjónustukostnaður ÍSP lækka um 200 millj. kr. á ársgrundvelli. 

Í tengslum við erindi ÍSP um fækkun dreifingardaga í dreifbýli lét PFS félagið framkvæma könnun á fjölda þeirra póstsendinga sem landpóstar bera út í dreifbýli, sem og viðkomutíðni á hverju heimilisfangi. Niðurstaða könnunarinnar var að 1,3 póstsendingar sem falla undir alþjónustu eru að meðaltali bornar út á hverjum degi til þeirra heimilisfanga sem könnunin tók til og að hvert heimilisfang er heimsótt að meðaltali annan hvern dag.

Á árinu 2011 var innleiddi ÍSP svokallað XY dreififyrirkomulag við dreifingu magnpósts, sem samkvæmt skilmálum og/eða samningum var með lengri afhendingartíma en almennur póstur. Innan XY dreififyrirkomulagsins er pósti almennt dreift annan hvern virkan dag í þéttbýli, fyrir utan A-póst sem dreift er daglega. Einnig var á árinu 2012 byrjað að bjóða upp á A-póst og B-póst fyrir alla viðskiptavini ÍSP á þeim póstsendingum sem falla innan alþjónustu. Ekki er mögulegt að styðjast við XY dreififyrirkomulagið við dreifingu í dreifbýli.

Í dag er B-póstur um 70% af öllum pósti innan einkaréttar, en honum er heimilt að dreifa innan þriggja virka daga. Sú breyting sem gerð er á tíðni dreifingar til þeirra heimilisfanga sem falla undir þessa nýju ákvörðun PFS nú hefur engin áhrif á dreifingu B-pósts. Hann mun eftir sem áður komast til skila innan settra tímamarka. Hins vegar mun breytingin hafa áhrif á helming A-pósts sem fellur undir einkarétt, en honum er skylt að dreifa daginn eftir móttöku. Þetta á við um 15% af öllum pósti sem í dag telst til einkaréttar.

Aukin notkun almennings og fyrirtækja á B-pósti bendir til að sendendur horfi ekki eins mikið og áður til hraðrar þjónustu. Kannanir Maskínu fyrir innanríkisráðuneytið og PFS á árinu 2013 og sambærileg könnun fyrir ÍSP á árinu 2015 styður þetta.

Í ákvörðun þeirri sem nú er birt er það niðurstaða PFS, að ákvæði laga um póstþjónustu, og gildandi reglugerðar um alþjónustu feli ekki í sér fortakslausa skyldu á hendur ÍSP, til að bera út póstsendingar alla virka daga, án tillits til aðstæðna og kostnaðar. Þessi niðurstaða sækir einnig stoð í Evróputilskipun um póstþjónustu nr. 67/97/EC.

Sjá ákvörðunina í heild:

Ákvörðun PFS nr. 34/2015 -Heimild Íslandspósts ohf. til að fækka dreifingardögum í dreifbýli

 

 


Til baka