Hoppa yfir valmynd

Norðurlönd sameinast um leiðbeinandi reglur til að efla upplýsingaöryggi í fjarskiptanetum

Túngumál EN
Heim

Norðurlönd sameinast um leiðbeinandi reglur til að efla upplýsingaöryggi í fjarskiptanetum

13. janúar 2016

Póst- og fjarskiptastofnun hefur, ásamt öðrum norrænum fjarskiptaeftirlitsaðilum, gefið út leiðbeinandi reglur, eða tilmæli, til að efla upplýsingaöryggi í fjarskiptanetum. Tilmælin varða merkjakerfi nr. 7 (Signalling System No. 7 eða SS7) sem fjarskiptafyrirtækin nota sín á milli til að setja upp og stýra uppsetningu símtala og gagnastreymi notenda.

SS7 kerfið var hannað og þróað á árunum milli 1970 og 1990, þ.e. áður en almennt var farið að hafa áhyggjur af öryggi upplýsinga. Síðan hafa orðið gríðarlegar breytingar á fjarskiptum og fjarskiptamörkuðum og á síðustu tveimur árum hafa veikleikar SS7 kerfisins varðandi öryggi ítrekað komið í ljós. Við sérstakar kringumstæður og með sérstakri tækni er hægt að misnota kerfið til að fylgjast með ferðum fólks um fjarskiptanet og jafnvel hlera samskipti. Í hinum nýju leiðbeiningum sem unnar voru í samráði við markaðsaðila, er farið yfir hvernig fjarskiptafyrirtæki geta unnið gegn þessum veikleikum í netum sínum.

Þetta er í fyrsta sinn sem Norðurlöndin sameinast um að gefa út leiðbeinandi reglur af þessu tagi. Sérfræðingar Póst- og fjarskiptastofnunar telja samstarfið mjög af hinu góða og til þess fallið að styðja og styrkja varnir gegn ýmsum ógnum í fjarskiptanetum, þar sem reynsla og þekking frá mismunandi löndum er lögð saman til að efla öryggi.

Hinar leiðbeinandi reglur norrænu fjarskiptaeftirlitsstofnananna hafa verið send beint til fjarskiptafyrirtækja á öllum Norðurlöndum.

 

 

Til baka