Hoppa yfir valmynd

Nýr viðauki um útbreiðslu- og uppbyggingakröfur tíðniheimildar 365 miðla ehf.

Túngumál EN
Heim

Nýr viðauki um útbreiðslu- og uppbyggingakröfur tíðniheimildar 365 miðla ehf.

20. janúar 2016

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) birtir í dag viðauka II við tíðniheimild A í samræmi við ákvörðun stofnunarinnar nr. 37/2015 frá 30. desember sl., þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að forsendur væru fyrir því að gerðar yrðu breytingar á 2. gr. tíðniheimildar A á 800 MHz tíðnisviðinu sem 365 miðlar ehf. hlutu í uppboði stofnunarinnar á tíðnisviðinu í ársbyrjun 2013.

Breyting PFS á útbreiðslu- og uppbyggingarkröfum felst fyrst og fremst í rýmri tímamörkum við uppbygginu á síðustu 2,5% lögheimila og vinnustaða hvers landssvæðis, sbr. viðauka I við tíðniheimild A, sem alla jafna verður að telja dýrasta hluta uppbyggingarinnar. Samkvæmt óbreyttri tíðniheimild eiga 365 miðlar ehf. að hafa náð 99,5% útbreiðslu með 10 Mb/s gagnaflutningshraða fyrir árslok 2016, með aukningu í 30 Mb/s 31. desember 2020. Með nýjum viðauka II þurfa 365 miðlar ehf. að uppfylla kröfur um 97% útbreiðslu með 10 Mb/s gagnaflutningshraða fyrir 31. desember 2016, með aukningu upp í 30 Mb/s á öllu útbreiðslusvæði sínu í árslok 2020. Mun lokaáfangi núgildandi tíðniheimildar, að ná 99,5% útbreiðslu með 30 Mb/s gagnaflutningshraða fyrir árslok 2020, frestast um tvö ár og skal nú lokið þann 31. desember 2022.

Samkvæmt nýjum viðauka skal tíðnirétthafi tryggja að 97% lögheimila og vinnustaða með heilsárs starfsemi, hvers landssvæðis, sbr. viðauka I, standi til boða háhraða farnetsþjónusta með 10 Mb/s gagnaflutningshraða fyrir 31. desember 2016. Þá skal tíðnirétthafi auka gagnaflutningshraða á útbreiðslusvæði sínu í 30 Mb/s fyrir árslok 2020 og að lokum bjóða 99,5% lögheimila og vinnustaða hvers landssvæðis háhraða farnetsþjónustu með 30 Mb/s gagnaflutningshraða þann 31. desember 2022.


Útbreiðslu- og uppbyggingarkröfur
 
   31. des. 2016  31. des 2020  31. des. 2022
Landssvæði  %  Mb/s  %  Mb/s  %  Mb/s
 Höfuðborgarsvæðið  97%  10 97 - %* 30  99,5%  30
 Austurland  97%  10 97 - %*  30  99,5%  30
 Norðvesturland  97%  10  97 - %*  30  99,5%  30
 Suðurland  97%  10 97 - %*   30  99,5%  30
 Vesturland  97%  10 97 - %*  30  99,5%  30
 Vestfirðir  97%  10 97 - %*  30  99,5%

 30

 *Efri mörk í útbreiðslu og uppbyggingu geta m.a. verið háð uppbyggingu staðbundinna ljósleiðaraneta

Uppbyggingin skal vera áfangaskipt fyrir árið 2016 og skal tíðnirétthafi bjóða 70% landsmanna 10 Mb/s þjónustu fyrir 1. október nk. og 97% hvers landssvæðis fyrir 31. desember 2016. Tíðnirétthafi skal jafnframt bjóða þjónustu í helmingi þeirra sveitarfélaga sem hafa byggt upp staðbundin ljósleiðaranet fyrir sama tímamark, og í öllum slíkum sveitarfélögum fyrir árslok 2016.

Á árunum 2017 til og með ársins 2020 skal uppbygging tíðnirétthafa a.m.k. fylgja uppbyggingu staðbundinna ljósleiðaraneta á landsbyggðinni og er tíðnirétthafi skuldbundinn til þess að bjóða háhraða farnetsþjónustu sex mánuðum eftir að slíkt net er tekið til notkunar í hlutaðeigandi sveitarfélagi. Verði ekki fullri útbreiðslu náð í þann 31. desember 2020 hefur tíðnirétthafi tvö ár til að uppfylla útbreiðslukröfur og ná 99,5% útbreiðslu á hverju landssvæði.

Í viðaukanum er jafnframt kveðið á um tímasettar áætlanir sem tíðnirétthafi skal skila til stofnunarinnar sem og ný dagsektarákvæði sé ákvæðum um uppbyggingu ekki fylgt.

Gildistaka viðauka II er háð því að 365 miðlar ehf. staðfesti með undirritaðri yfirlýsingu að félagið gangi að breyttum skilmálmum tíðniheimildarinnar. Slík yfirlýsing skal berast Póst- og fjarskiptastofnun fyrir lok dags 1. mars 2016. Berist ekki slík staðfesting munu útbreiðslu- og uppbyggingarkröfur tíðniheimildar A standa óbreytt.

 Sjá nánar í skjalinu sjálfu:

Viðauki II við tíðniheimild 365 miðla ehf. til notkunar fyrir farnetsþjónustu á 800 MHz tíðnisviðinu (Tíðniheimild A)

 


 

Til baka