Hoppa yfir valmynd

PFS kallar eftir samráði um endurnýjun tíðniheimilda á 900 MHz tíðnisviðinu

Túngumál EN
Heim

PFS kallar eftir samráði um endurnýjun tíðniheimilda á 900 MHz tíðnisviðinu

31. mars 2016

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) kallar eftir samráði við hagsmunaaðila um beiðnir Fjarskipta hf. og Símans hf. um endurnýjun tíðniheimilda félaganna fyrir 2x5 MHz á 900 MHz tíðnisviðinu sem hafa gildistíma til 14. febrúar 2017. Um er að ræða tíðniheimild Fjarskipta hf. til notkunar á tíðnum 885-890/930-935 MHz og heimild Símans hf. til notkunar á tíðnum 900,1-904,9/945,1-949,9 MHz fyrir 2G/GSM og 3G/UMTS þjónustu.

Ákvæði um endurnýjun tíðniheimilda er að finna í 32. gr. reglugerðar, nr. 1047/2011, um skipulag og úthlutun tíðna fyrir fjarskiptaþjónustu. Þar kemur fram sú meginregla að tíðniheimild skuli að jafnaði endurnýjuð að því tilskildu að endurnýjunin hafi ekki neikvæð áhrif á samkeppni á fjarskiptamarkaði eða á skipulag og nýtingu tíðnirófsins. Þrátt fyrir þessa meginreglu er PFS heimilt að hafna beiðni um slíka endurnýjun tíðniheimildar telji stofnunin forsendur til þess, sbr. stafliði ákvæðisins.

Stofnunin hefur nú lagt frummat á þau sjónarmið sem fram koma í ákvæði 32. gr. og telur, á grundvelli fyrirliggjandi gagna, að flest sjónarmið leiði til þess að til endurnýjunar komi. Aftur á móti telur stofnunin eðlilegt að endurnýjunin fylgi gildistíma annarra tíðniheimilda á 900 MHz tíðnisviðinu, eða til og með 13. febrúar 2022. Þannig fylgi gildistími hinna endurnýjuðu tíðniheimilda gildistíma annarra tíðniheimilda á tíðnisviðinu.

Hér með er óskað viðbragða allra hlutaðeigandi aðila á því samráðsskjali sem hér birtist um beiðnir um endurnýjun á tíðniheimildum Fjarskipta hf. og Símans hf. á 900 MHz tíðnisviðinu. Senda skal athugasemdir til Póst- og fjarskiptastofnunar fyrir lok föstudagsins 15. apríl 2016.

Samráðsskjal PFS um beiðnir um endurnýjun tíðniheimilda Fjarskipta hf. og Símans hf. á 900 MHz tíðnisviðinu

 

 

Til baka