Hoppa yfir valmynd

Ákvörðun PFS: Bannákvæði 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga nær yfir ólínulega myndmiðlun

Túngumál EN
Heim

Ákvörðun PFS: Bannákvæði 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga nær yfir ólínulega myndmiðlun

19. apríl 2016

Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 3/2016 þar sem stofnunin kemst að þeirri niðurstöðu að bannákvæði 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga nr. 38/2011 nái til ólínulegrar myndmiðlunar.

Málið varðar ágreining á milli Símans hf. (Síminn) og Fjarskipta hf. (Vodafone) um það hvort ofangreint ákvæði nái einungis til línulegra sjónvarpsútsendinga, eins og Síminn hélt fram, eða jafnframt til ólínulegrar myndmiðlunar, eins og Vodafone hélt fram og fjölmiðlanefnd tók undir í áliti sínu. Ólínuleg (eða hliðruð) myndmiðlun getur falið í sér þjónustuþætti á borð við Tímaflakk/Tímavél og Frelsi í sjónvarpi.

Samkvæmt ákvæðinu er fjölmiðlaveitu óheimilt að beina viðskiptum viðskiptamanna að tengdu fjarskiptafyrirtæki. Síminn rekur bæði fjölmiðlaveitu og fjarskiptafyrirtæki. Vodafone telur að með því að bjóða einungis upp á ólínulega myndmiðlun á efni Sjónvarps Símans á fjarskiptanetum Símasamstæðunnar sé Síminn að brjóta gegn umræddu bannákvæði. Þeir sem áhuga hafi á að horfa á myndefnið utan hefðbundinna sjónvarpsútsendingatíma geti ekki gert það á öðrum fjarskiptanetum en fjarskiptanetum Símasamstæðunnar. Því gætu viðskiptavinir annarra fjarskiptafyrirtækja þurft að færa viðskipti sín yfir til Símans til að geta nálgast efnið, en slík hefði skaðlegar afleiðingar í för með sér fyrir samkeppni á fjarskiptamarkaði og þar með á hagsmuni neytenda.

PFS taldi rétt að útkljá umrætt álitaefni varðandi gildissvið ákvæðisins áður en afstaða yrði tekin til þess hvort Síminn hafi gerst brotlegur við það. Nú þegar sú niðurstaða liggur fyrir mun PFS gefa aðilum hæfilegt svigrúm til að freista þess að leysa málið sín á milli. Takist það ekki mun PFS taka málið til frekari skoðunar og leggja í framhaldinu mat á það hvort Síminn hafi með háttsemi sinni brotið gegn umræddri 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga. Nái aðilar ekki samkomulagi um lausn málsins á næstunni mun endanleg niðurstaða PFS liggja fyrir innan tíðar.

Sjá ákvörðunina í heild:

Ákvörðun PFS nr. 3/2016 - Gildissvið bannákvæðis 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga

 

 

Til baka