Hoppa yfir valmynd

Ný ákvörðun PFS um skyldu Mílu til að útvega tengingar við almenna fjarskiptanetið.

Túngumál EN
Heim

Ný ákvörðun PFS um skyldu Mílu til að útvega tengingar við almenna fjarskiptanetið.

22. apríl 2016

Póst- og fjarskiptastofnun hefur með ákvörðun sinni nr. 4/2016 lagt nýja alþjónustukvöð á Mílu um að útvega notendum tengingu við almenna fjarskiptanetið, en fyrri ákvörðun stofnunarinnar nr. 40/2014 var felld úr gildi af úrskurðarnefnd í máli nr. 3/2015, frá 26. janúar 2016.

Hin nýja ákvörðun nú er byggð á samráðsskjali PFS frá því í febrúar 2016 að teknu tilliti til þeirra athugasemda sem bárust. Í henni er fjallað um útnefninguna og gerð grein fyrir forsendum við útnefningu og val á Mílu sem alþjónustuveitanda. Í viðauka við ákvörðunina er að finna allar athugasemdir sem stofnuninni bárust frá umsagnaraðilum og afstöðu PFS gagnvart þeim athugasemdum. Þá vill PFS taka fram að skoða ber afstöðu PFS til athugasemda Mílu sem birtist í viðaukanum, sem svör stofnunarinnar við andmælum félagsins. Með tilliti til þessa er viðaukinn þannig órjúfanlegur hluti af ákvörðuninni.

Í ákvörðuninni er mælt fyrir um eftirfarandi skyldur Mílu sem alþjónustuveitanda:

Skylda til að útvega aðgang að tengingu
Míla ehf. skal útvega og viðhalda aðgangi að tengingu við almenna fjarskiptanetið um nettengipunkt, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. reglugerðar um alþjónustu, nr. 1356/2007 og ákvæðum 19. og 20. gr. fjarskiptalaga nr. 83/2003 , og bera við það kostnað innan þeirra marka sem nemur ósanngjarnri byrði, en þó að hámarki 650.000 kr. (án vsk.) fyrir hverja heimtaug.

Ef áætlaður kostnaður er meiri en 650.000 kr. (án vsk.) skal Míla verða við beiðnum um aðgang, ef umsækjandi samþykkir að greiða þann kostnað sem er umfram 650.000 kr., auk almenns stofngjalds samkvæmt gjaldskrá alþjónustuveitandans.

Landfræðileg afmörkun
Útnefningin nær til landsins alls.

Útnefningartímabil
Útnefningin gildir frá birtingu ákvörðunar til og með 31. desember 2016. Heimilt er að framlengja útnefningartímabilið til 31. desember 2017 með tilkynningu stofnunarinnar til Mílu þar að lútandi.

Áskilnaður um breytingar
Póst- og fjarskiptastofnun áskilur sér rétt til að taka ákvörðunina upp á ný, ef forsendur breytast verulega, t.d. með nýrri lagasetningu og/eða breytingum á reglugerð um alþjónustu nr. 1356/2007.

PFS vill benda á að nýmæli er að finna í ákvörðuninni hvað varðar hina landfræðilegu afmörkun. Þrátt fyrir að útnefningin nái til landsins í heild sinni þá er gert ráð fyrir þeim möguleika fyrir alþjónustuveitanda að óska eftir takmörkun á umfangi kvaðarinnar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Í stað þess að kvöðin nái þannig til landsins alls án nokkurra möguleika til undantekninga, er mælt fyrir um að það kunni að vera tilefni til að kanna hvort grundvöllur sé fyrir álagningu alþjónustukvaðar í tilteknum sveitarfélögum. Grunnforsenda og skilyrði þess er þó að til staðar sé annað aðgangsnet fastanetstenginga fyrir alla notendur sveitarfélagsins. Áður en ákvörðun er tekin um slíka takmörkun þarf stofnuninni þó að berast umsókn frá alþjónustuveitanda ásamt rökstuðningi fyrir undanþágu. Með þessu er það mat PFS að farinn sé ákveðinn millivegur sem sé málefnalegur og tryggi annars vegar lögbundna hagsmuni almennings af því að hafa örugga tengingu við fastanetið og hins vegar hagsmuni alþjónustuveitanda um að hægt sé að draga úr umfangi kvaðarinnar.

 

 Sjá ákvörðun PFS í heild ásamt viðauka:

Ákvörðun PFS nr 4/2016 um útnefningu Mílu ehf. með alþjónustukvöð ásamt viðauka með athugasemdum hagsmunaaðila og svörum PFS

 

 

 

Til baka