Hoppa yfir valmynd

Réttur til alþjónustu ekki án takmarkana

Tungumál EN
Heim
18. maí 2016

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) birtir nú ákvörðun í máli sem varðar erindi frá ábúanda í Strandasýslu á Vestfjörðum um rétt til alþjónustu. Í erindinu var óskað eftir svörum við því hvenær von væri á síma- og háhraðatengingu líkt og allir landsmenn ættu rétt á. Samkvæmt ábúanda er um algjört sambandsleysi að ræða á bænum og tiltók hann að þar sem ekki virtist mögulegt að veita fastanetstengingu og þar með talsímaþjónustu, eins og lög geri ráð fyrir, þá myndi hann sætta sig við aðra kosti s.s. með GSM sambandi (3G/4G). Slík lausn væri enda langtum ódýrari leið til þess að uppfylla ákvæði fjarskiptalaga um alþjónustu en með því að leggja streng í jörðu.

Í meðfylgjandi ákvörðun stofnunarinnar kemur fram að í ákvæðum fjarskiptalaga felist vissulega sú skylda að tryggja lögheimilum lágmarksfjarskiptaþjónustu (alþjónustu) en að sá réttur til alþjónustu sé ekki án takmarkana. Þannig er kostnaður við að veita alþjónustu bundinn tilteknum hámarkskostnaði, 650.000 kr. sem er almennt viðmið um hámarkskostnað tengingar sem alþjónustuveitanda er gert að bera. Kostnaður við að leggja heimtaug að bænum er hins vegar langt umfram þá upphæð, eða um 40 milljónir kr. Er það mat PFS að sá kostnaður sé langt umfram fyrrgreinda hámarksbyrði alþjónustuveitanda samkvæmt gildandi alþjónustukvöð. Umfram kostnaðarbyrði í þessu tilviki myndi þannig falla á viðkomandi notanda. Það er því niðurstaða PFS að alþjónustuveitandanum, Mílu ehf., sé í þessu tilfelli ekki skylt að verða við beiðni um aðgang að almenna fjarskiptanetinu um nettengipunkt og bera kostnað við þá framkvæmd umfram hina fyrrgreindu hámarksbyrði á grundvelli gildandi alþjónustukvaðar sbr. ákvörðun PFS nr. 4/2016.

Hvað varðar kröfu ábúanda um að notast sé við aðrar tæknilausnir en fastanetstengingu, s.s. með GSM sambandi getur PFS fallist á að þess konar framkvæmd geti verið talsvert ódýrari en lagning heimtaugar að bænum enda þarf mun minni jarðvegsframkvæmd til uppsetningar á farsímasendi en lagningu heimtaugar á u.þ.b. 40 km. langri lagnaleið eins og hér um ræðir. Í núverandi lagaumhverfi getur stofnunin ekki horft til slíkra tæknilegra lausna og úrræða, í þessu máli eða öðrum slíkum. Til þess þyrfti að koma til lagabreyting. Eins og lögum er nú háttað telst þráðlaus fjarskiptaþjónusta, svo sem farsímaþjónusta eða háhraðanetstenging ekki til alþjónustu í skilningi fjarskiptalaga skv. 1. og 3. málsgreinum 19. gr. laganna. Skv. núgildandi fjarskiptalögum er því ekki skylda að útvega öllum landsmönnum 3G eða 4G þjónustu, þar sem slík þjónusta er umfram þá lágmarks gagnaflutningsþjónustu sem í alþjónustunni felst, þ.e gagnaflutningsþjónusta með 128 Kb/s flutningsgetu.

Stofnunin hefur því enga heimild til að leggja kvöð á fjarskiptafyrirtæki um að veita slíka þjónustu og hefur því engin úrræði til að bregðast við kröfu kvartanda um háhraðanettengingu eða 3G/4G farsímasamband. Með vísun til framangreinds á kvartandi ekki rétt til þess að leyst sé úr símasambandsleysi á viðkomandi stað með uppsetningu á farsímasendi eða öðrum hliðstæðum tæknilausnum.  Hefur stofnunin kynnt málsaðilum ákvörðun sína.

Sjá nánar í ákvörðuninni sjálfri:

Ákvörðun PFS nr. 5/2016 - Fjarskiptasamband ábúanda í Strandasýslu

 

Til baka