Hoppa yfir valmynd

Nýjar reglur ESB um nethlutleysi - opinn kynningarfundur BEREC

Tungumál EN
Heim
27. maí 2016

Þann 6. júní næstkomandi mun samstarfsvettvangur fjarskiptaeftirlitsstofnana innan EES svæðisins, BEREC, halda opinn upplýsingafund í Brussel þar sem hleypt verður af stokkunum opnu samráði um drög að leiðbeiningum um hvernig eftirlitsstofnanir Evrópuríkja skulu túlka og beita reglugerð um nethlutleysi sem framkvæmdastjórn ESB samþykkti í nóvember sl. Reglugerðin hefur þegar verið tekin inn í EES samninginn og verður innleidd hér á landi þegar þegar lög um það hafa verið samþykkt á Alþingi. 

Í reglugerðinni eru settar fram meginreglur til verndar hins opna internets fyrir alla.

Gagnvart notendum er meginreglan þessi:

Notendur skulu hafa rétt á aðgangi að og til að dreifa upplýsingum og efni, til að nota og bjóða hugbúnað og þjónustu, og til að nota endabúnað að eigin vali, án tillits til staðsetningar notandans eða þjónustuveitandans eða staðsetningar, uppruna eða ákvörðunarstaðar upplýsinganna, efnisins, hugbúnaðarins eða þjónustunnar, í gegnum netaðgangsþjónustu sína.

Gagnvart internetþjónustum er meginreglan þessi:

Þegar netaðgangsþjónusta er veitt skulu veitendur netaðgangsþjónustu meðhöndla alla umferð eins, án mismununar, takmarkana eða truflunar og óháð sendanda eða móttakanda, því efni sem nálgast er eða dreift, þeim hugbúnaði eða þjónustu sem notuð er eða þeim endabúnaði sem notaður er.

Á upplýsingafundinum í Brussel verða einnig kynntar niðurstöður fjórðungsþings BEREC sem haldið verður dagana 2. og 3. júní nk.

Fundurinn verður sendur beint út á vefsíðu BEREC fyrir þá sem ekki komast á staðinn. Til þess að fylgjast með honum og taka þátt þarf þó að skrá sig fyrirfram, en þeir sem sækja fundinn í gegn um netið geta sent inn fyrirspurnir og athugasemdir í rauntíma með því að nota Twitter síðu samtakanna #BERECpublic eða senda tölvupóst á netfangið press@berec.europa.eu.

Hægt er að skrá sig á fundinn til 1. júní nk. Sjá nánari upplýsingar og skráningarform á vefsíðu BEREC

Póst- og fjarskiptastofnun hvetur íslenska hagsmunaaðila til að kynna sér málið og taka þátt í því mikilvæga samráði um nethlutleysi sem kynnt verður á fundinum.

Sjá einnig niðurstöðu úttektar Póst- og fjarskiptastofnunar á stöðu nethlutleysis hér á landi sem birt var í apríl sl.

 

 

Til baka