Hoppa yfir valmynd

Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS um útnefningu Mílu með umtalsverðan markaðsstyrk á heildsölumarkaði fyrir stofnlínuhluta leigulína

Túngumál EN
Heim

Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS um útnefningu Mílu með umtalsverðan markaðsstyrk á heildsölumarkaði fyrir stofnlínuhluta leigulína

14. júní 2016

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur með úrskurði sínum í máli nr. 8/2015 staðfest ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 21/2015 um að Míla hafi stöðu fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi heildsölumarkaði fyrir stofnlínuhluta leigulína.

Með hinni kærðu ákvörðun, sem tekin var í kjölfar markaðsgreiningar, skilgreindi PFS markaðinn sem landið allt og útnefndi Mílu með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi markaði. Í samræmi við útnefninguna eru með ákvörðuninni lagðar viðeigandi kvaðir á Mílu, m.a. kvöð um aðgang, jafnræði, gagnsæi, bókhaldslega aðgreiningu og kostnaðarmiðaða gjaldskrá.

Míla á og rekur grunnnet fjarskipta um allt land, þ.m.t. stofnlínunet sem eru þær lagnir sem liggja milli símstöðva eða hliðstæðra tengipunkta þar sem fyrirtæki og heimili tengjast. Fyrirtækið er með umtalsverðan markaðsstyrk á þessu sviði og því hvílir sú kvöð á því að veita öðrum fjarskiptafyrirtækjum aðgang að stofnlínuneti sínu, svo fremi að slík beiðni sé sanngjörn og eðlileg. Í hverju tilviki ber Mílu að gæta jafnræðis milli þeirra fyrirtækja sem byggja rekstur sinn á neti Mílu annars vegar og eigin deilda eða deilda innan Símasamstæðunnar sem veita samskonar þjónustu hins vegar.

Míla gerði tvær kröfur í áfrýjun sinni, í fyrsta lagi krafðist fyrirtækið frestunar réttaráhrifa umræddrar ákvörðunar PFS og í öðru lagi krafðist Míla ógildingar hennar. Með úrskurði sínum þann 3. nóvember s.l. hafnaði úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála kröfu Mílu um frestun réttaráhrifa og með urskurði nefndarinnar nú er kröfu Mílu um ógildingu ákvörðunar PFS hafnað.

Úrskurðarnefnd tekur undir með PFS að nokkuð umfangsmikil forathugun á landfræðilegum skilyrðum sýni að skilyrði séu ekki fyrir því að farið sé út í ítarlega rannsókn á landfræðilegri skiptingu markaðarins. PFS taldi að slík rannsókn yrði óþarflega íþyngjandi, bæði fyrir Mílu og stofnunina, myndi tefja niðurstöðu greiningarinnar og þar með þróun viðkomandi markaðar og myndi, þegar allt kæmi til alls, ekki breyta niðurstöðu forathugunarinnar. Úrskurðarnefnd taldi ekki ástæðu til að hnekkja því mati PFS.

Nefndin kemst einnig að þeirri niðurstöðu að ekkert í málinu gefi tilefni til þess að ætla að PFS hafi ekki uppfyllt rannsóknarskyldu skv. 10. gr. stjórnsýslulaga við meðferð greiningarinnar. Til grundvallar ákvörðuninni liggi ítarleg greining á markaðnum, athugasemdir fjarskiptafyrirtækja sem á honum starfa, athugasemdir Samkeppniseftirlitsins auk afstaða PFS til athugasemdanna. Úrskurðarnefnd gerir því ekki athugasemd við niðurstöðu ákvörðunarinnar um markaðsstyrk Mílu.

Nefndin hafnar því kröfu Mílu um ógildingu ákvörðunar PFS.

Sjá úrskurðinn í heild:

Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli nr. 8/2015

 

 

 

 

 

Til baka