Hoppa yfir valmynd

Norræn fjarskiptanotkun: Gagnanotkun í farnetum heldur áfram að aukast hratt

Túngumál EN
Heim

Norræn fjarskiptanotkun: Gagnanotkun í farnetum heldur áfram að aukast hratt

22. júní 2016

Í dag kemur út skýrsla sem Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) og systurstofnanir hennar á Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndunum hafa tekið saman um notkun helstu þátta fjarskiptaþjónustu og þróun undanfarinna ára í löndunum átta. Þetta er sjöunda árið í röð sem fjarskiptanotkun íbúa Norðurlandanna er borin saman og Eystrasaltslöndin hafa einnig verið með síðustu ár.

Á heildina litið er fjarskiptanotkun mjög lík í þessum löndum og íbúar þeirra nýta sér sambærilega tækni á svipaðan máta. Þrátt fyrir það má þó víða sjá mun á notkun og þróun einstakra þátta.

Áberandi er að fjölgun áskrifta í farnetum hefur nánast staðið í stað í flestum samanburðarlöndunum.

Íslendingar eru eins og áður með flestar fastar háhraðainternettengingar miðað við höfðatölu fyrir auglýstan niðurhalshraða 30 Mb/sek. eða meira. Ástæðuna má rekja til fjölgunar VDSL og ljósleiðaratenginga hér á landi.

Skýrslan sýnir mikla aukningu í gagnanotkun á farnetum í öllum löndunum.  Þar er Ísland í miðjum hópnum, en þessi þróun er alls staðar hröð og stöðug.

Varðandi þróunina í sjónvarpsdreifingu yfir internetið (IPTV) skera Íslendingar sig úr og eru með langflestar áskriftir miðað við höfðatölu, enda hefur framboð á kapalsjónvarpi og sjónvarpi um gervitungl ekki verið til staðar hér á landi eins og í samanburðarlöndunum.

Íslendingar, Danir og Svíar skera sig úr þegar litið er til áskrifta að fastlínusíma með IP tækni. Þetta skýrist m.a. af fjölgun ljósleiðaratenginga hérlendis. Svíar eru einnig, miðað við höfðatölu, með langflestar háhraðanettengingar sem ná 100 Mb/s niðurhalshraða eða meira. Þar erum við Íslendingar í þriðja sæti.

Í skýrslunni fyrir 2015 eru nokkrir nýir þættir, svo sem tölur um þróun fólksfjölda í löndunum átta og einnig eru settar fram tölur um fjölda margmiðlunarskilaboða (MMS) sem ekki hafa verið með áður. Eftir því sem þróun tækninnar og möguleikum til fjölbreyttari notkunar á henni fleygir fram bætast einnig ný talnagögn við og að þessu sinni eru birtar tölur um áskriftir þar sem tæki eru í sjálfvirkum samskiptum við önnur tæki. Þetta eru svokallaðar Tæki í tæki eða TíT áskriftir sem á ensku kallast Machine to Machine eða M2M.

Sjá skýrsluna í heild (á ensku):
Telecommunication Markets in the Nordic and Baltic Countries 2015

Tölfræðina má einnig skoða í gagnagrunni hennar sem geymdur er hjá systurstofnun PFS í Svíþjóð, Post- og telestyrelsen:
http://statistik.pts.se/PTSnordic/NordicBaltic2015 

 
Hér á vefnum má einnig nálgast allar samanburðarskýrslurnar frá upphafi á einum stað.

Til baka