Hoppa yfir valmynd

Félag heyrnarlausra vill að myndsímatúlkun falli undir alþjónustu

Tungumál EN
Heim
7. september 2016

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur borist erindi frá Félagi heyrnarlausra, þar sem því er haldið fram að sú þjónusta sem Samskiptamiðstöð heyrnarlausra hefur veitt á undanförnum árum í formi myndsímatúlkunar teljist til alþjónustu í fjarskiptum og að fjármagna eigi þjónustuna í samræmi við það, sbr. 19 - 21. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003. Í erindinu felst að farið er fram á að PFS staðfesti þennan skilning félagsins og taki ákvörðun þess efnis að myndsímatúlkun falli undir alþjónustu.

Þar sem þetta álitaefni hefur ekki fyrr komið til úrlausnar hjá PFS telur stofnunin nauðsynlegt að mögulegir hagsmunaaðilar fái að koma sínum sjónarmiðum í málinu að áður en endanleg afstaða verður tekin til erindisins.

Tvö fyrirtæki bera alþjónustuskyldur á sviði fjarskipta í dag, þ.e. Míla ehf. og Neyðarlínan ohf.

Míla ehf.

Með ákvörðun PFS nr. 30/2013, voru allar alþjónustuskyldur í fjarskiptum felldar niður fyrir utan þá skyldu sem hvílt hefur á Mílu ehf. um að veita aðgang að tengingu við almenna fjarskiptanetið. Skyldan á Mílu hefur verið endurnýjuð, nú síðast með ákvörðun PFS nr. 4/2016. Samkvæmt henni ber Mílu að útvega og viðhalda aðgangi að tengingu lögheimila og vinnustaða við almenna fjarskiptanetið um nettengipunkt. Útnefningin tekur til landsins alls, en Mílu er þó heimilt að sækja um undanþágu ef tiltekin skilyrði eru fyrir hendi.

Þær alþjónustuskyldur sem voru felldar niður með ákvörðun nr. 30/2013 voru aðgangur að talsímaþjónustu, aðgangur að gagnaflutningsþjónustu, rekstur almenningssíma og þjónusta við öryrkja eða notendur með sérstakar þjóðfélagsþarfir. Í ákvörðunarorðum áskildi PFS sér rétt til að taka ákvörðunina upp á ný ef aðstæður breyttust. Þar voru nefnd sem dæmi að ný lög yrðu sett og/eða að breytingar yrðu gerðar á reglugerð um alþjónustu nr. 1356/2007 sem gætu valdið því nauðsynlegt yrði að endurskoða málið.

Að mati PFS er þessi almenni fyrirvari í fullu gildi og mun stofnunin m.a. vísa til hans ef niðurstaðan verður sú að Félag heyrnarlausra eigi þann rétt, sem fjallað er um í umsókn félagsins, sjá erindi félagsins hér að neðan.

Neyðarlínan ohf.

Með ákvörðun PFS nr. 17/2009 framlengdi stofnunin alþjónustuskyldur Neyðarlínunnar um aðgang að neyðarþjónustu og svörun neyðarsímtala. Skyldi útnefningin gilda á meðan Neyðarlínan væri með samning við innanríkisráðuneytið um rekstur vaktstöðvar samræmdrar neyðarsímsvörunar.

Í erindi Félags heyrnarlausra kemur m.a. fram að myndsímatúlkun falli undir alþjónustu að mati félagsins og að fjarskiptafyrirtæki eigi að veita þjónustuna eða fela öðrum að veita hana. Jafnframt eigi að fjármagna þjónustuna í samræmi við fjarskiptalög.

Vísar félagið í þessu sambandi til eftirfarandi ákvæða í 19. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti:

  • Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. fjarskiptalaga eiga allir notendur rétt á alþjónustu, óháð staðsetningu
  • Í 2. mgr. 19. gr. fjarskiptalaga er kveðið á um að PFS geti mælt svo fyrir að fjarskiptafyrirtæki sem rekur almennt fjarskiptanet eða fjarskiptaþjónustu skuli veita alþjónustu á starfssvæði sínu
  • Í 3. mgr. kemur fram að þjónusta við öryrkja eða notendur með sérstakar þjóðfélagsþarfir teljist til alþjónustu, án þess að það sé skýrt nánar hvaða þjónusta getur fallið þar undir.

Einnig er í erindinu vísað til reglugerðar nr. 1356/2007 um alþjónustu.

PFS kallar nú eftir athugasemdum allra hagsmunaaðila um umsókn/kröfu Félags heyrnarlausra. Hafa skal í huga að á þessu stigi er aðeins verið að kalla eftir athugasemdum varðandi það hvort Félag heyrnarlausra eigi þessi tilteknu réttindi samkvæmt lögum um fjarskipti sem félagið heldur fram.

Með erindinu til PFS fylgdi kostnaðaráætlun Félags heyrnarlausra þar sem gert er ráð fyrir að árlegur kostnaður við rekstur myndsímatúlkunar, miðað við þjónustu í 55 klst. á viku, yrði tæplega 14,5 milljónir, sjá fylgiskjal með erindinu hér fyrir neðan.

Ef niðurstaða PFS verður sú að félagið eigi þennan rétt koma nokkrir möguleikar til greina um framhald málsins, þ.e. hvort fara eigi í útnefningarferli eða í útboð á þjónustunni. Í tengslum við það þyrfti einnig að taka ákvörðun um fjármögnun þessarar þjónustu, en sennilegt er að atbeina Alþingis þurfi til ef alþjónustuleiðin er farin. PFS mun hafa samráð við markaðinn um alla þessa þætti þegar og ef ástæða er til.

Athugasemdir við erindi Félags heyrnarlausra skulu berast stofnuninni, á netfangið fridrik(hjá)pfs.is, fyrir 7. október nk.

Sjá erindi félagsins og fylgiskjal hér fyrir neðan:

Erindi Félags heyrnarlausra til PFS - Umsókn um fjarskiptaþjónustu

Fylgiskjal: Kostnaðaráætlun Félags heyrnarlausra varðandi myndsímatúlkun

 

Til baka