Hoppa yfir valmynd

Aðstoð við sveitarfélög sem áforma lagningu ljósleiðara

Tungumál EN
Heim
8. september 2016

Þegar fjarskiptainnviðir eru byggðir upp með fjárstuðningi frá hinu opinbera (ríki eða sveitarfélögum) þarf að gæta að reglum EES löggjafar um ríkisaðstoð. Það er hlutverk Póst- og fjarskiptastofnunar að leiðbeina aðilum um rétta framkvæmd í þessum efnum. Meðal þess sem stofnunin hefur gert er að gefa út leiðbeiningar til opinberra aðila um uppbyggingu ljósleiðaraneta með tilliti til ríkisaðstoðarreglna EES.

Í tilefni af átaki stjórnvalda um að aðstoða sveitarfélög á strjálbýlum svæðum, þar sem slík uppbygging mun ekki eiga sér stað á markaðsforsendum, er fyrirséð að reyna mun á reglur um ríkisaðstoð á sviði fjarskipta í auknum mæli á komandi árum.

Ein mikilvægasta forsendan fyrir því að ríkisaðstoð sé heimil er að styrkveitandi gangi úr skugga um að ekki sé verið að skaða samkeppni með því að byggja upp fjarskiptainnviði á svæði þar sem þegar eru fyrir hendi fjarskiptainnviðir sem bjóða upp á, eða geta boðið upp á, sömu fjarskiptaþjónustu (eða a.m.k. mjög sambærilega þjónustu). Sömuleiðis að ekki sé verið raska áformum markaðsaðila sem hefur í hyggju uppbyggingu á viðkomandi svæði á markaðsforsendum.

Könnun styrkveitanda á markaðsforsendum á því svæði sem fyrirhuguð uppbygging nær til er m.a. fólgin í því að auglýsa eftir því hvort að markaðsaðilar séu með fyrirætlanir um uppbyggingu á svæðinu á markaðsforsendum á næstu árum. Við það sama tækifæri getur verið kostur að kanna sömuleiðis hvort einhver markaðsaðili hafi áhuga á taka þátt í verkefni styrkveitanda, ef auglýsingin leiðir í ljós að engin uppbygging er fyrirhuguð á markaðsforsendum.

Önnur mikilvæg forsenda fyrir því að ríkisaðstoð sé heimil er að nýta, eins og kostur er, þá fjarskiptainnviði sem eru fyrirliggjandi á svæðinu og geta komið að notum við uppbyggingu hins nýja nets, enda standi slíkir innviðir til boða á eðlilegum kjörum sem leiði ekki til hækkunar ríkisaðstoðar samanborðið við aðra framkvæmdarvalkosti og uppfylli tæknilegar kröfur. Því getur verið skynsamlegt að láta auglýsingu einnig taka til þessa atriðis.

Póst- og fjarskiptastofnun hefur nú gert almenna fyrirmynd að auglýsingu sem tekur til framangreindra þátta og sveitarfélög geta notað við könnun á markaðsforsendum. Að áliti stofnunarinnar er nauðsynlegt að auglýsing styrkveitanda birtist a.m.k. í einum fjölmiðli sem er með útbreiðslu um allt land og að gefinn sé hæfilegur svarfrestur.

Fyrirmynd að auglýsingu vegna fyrirhugaðrar lagningar ljósleiðara

Sjá nánar um ljósleiðarauppbyggingu og ríkisstyrki hér á vefnum

 

 

 

 

Til baka