Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) sér um upplýsingagjöf og leiðbeiningar til þeirra sveitarfélaga sem hyggja á lagningu ljósleiðara á sínu svæði.
Til að auðvelda val þeirra staða, þ.e. heimila og fyrirtækja sem ákveðið er að tengja innan hvers sveitarfélags hefur stofnunin nú gefið út verklagsreglur um gerð staðarlista. Verklagsreglurnar eru leiðbeiningar um hvernig standa skal að því að ákveða þá staði sem skulu tengdir ljósleiðara innan sveitarfélagsins, þegar uppbyggingin á sér stað með fjárstuðningi þess. Þarna er um að ræða val þeirra heimila og vinnustaða sem sveitarfélagið hefur í hyggju að styrkja.
Um leið þarf að taka ákvarðanir um aðra tengistaði sem eðlilegt þykir að gera ráð fyrir í slíku verkefni, þó svo að sveitarfélagið veiti ekki fjárstuðning til þeirra. Þetta á t.d. við um sumarhúsabyggðir og tengingu farnetssenda við ljósleiðara.
Verklagsreglurnar fela í sér skýringar á hugtökum sem reynir á við ákvarðanatöku við gerð staðarlista og ábendingar um framkvæmdaleg atriði sem skynsamlegt er að fylgja að áliti Póst- og fjarskiptastofnunar.
Verklagsreglur um gerð staðarlista
Til baka