Hoppa yfir valmynd

Dagsektir lagðar á 365 miðla vegna vanefnda á uppbyggingu háhraða farnets

Túngumál EN
Heim

Dagsektir lagðar á 365 miðla vegna vanefnda á uppbyggingu háhraða farnets

6. janúar 2017

Á fyrri hluta árs 2013 tóku 365 miðlar ehf. þátt í uppboði Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) á tíðnum á 800 MHz tíðnisviðinu fyrir háhraða farnetsþjónustu. Félagið bauð í tvær tíðnir og hreppti þær báðar. Annars vegar var um að ræða svokallaða tíðniheimild A, en samkvæmt henni skyldi farnetsþjónusta með 10 Mb/s ná til 99,5% lögheimila og vinnustaða fyrir 31. desember 2016. Hins vegar var um að ræða tíðniheimild B sem hafði einungis að geyma almenna kröfu um útbreiðslu farnetsþjónustu með 10 Mb/ hraða sem skyldi ná til 93,5% lögheimila og vinnustaða fyrir 31. desember 2016. Til mótvægis við auknar uppbyggingarkröfur samkvæmt tíðniheimild A var tíðnisviðið sem úthlutað var tvöfalt stærra en aðrar heimildir á þessu tíðnisviði og einnig var heimildin gefin út með lengri gildistíma, eða til 25 ára í stað 10 ára.

Í kjölfar skýrslu vinnuhóps á vegum innanríkisráðuneytisins um ljósleiðarvæðingu landsins, „Ísland ljóstengt“, sem gefin var út í mars 2015 var hrundið af stað átaki um að veita opinberan stuðning til sveitarfélaga til að styðja við uppbygginu á ljósleiðartengingum á svæðum sem byggju við markaðsbrest fyrir slíka þjónustu. Fé til verkefnisins var sett á fjárlög ársins 2016. Frá úthlutun tíðniheimildanna eftir fyrrnefnt tíðniuppboð á fyrri hluta ársins 2013 hafði jafnframt orðið sú breyting á markaðsaðstæðum að Fjarskipti hf. (Vodafone) og Nova höfðu fengið heimild Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) og Samkeppniseftirlitsins til að eiga með sér samstarf um rekstur farnets og nýtingu tíðna.

Að áliti 365 miðla ehf. fólu þessar tvær breytingar í sér forsendubrest sem ættu að hafa þær afleiðingar að slakað yrði á kröfum til uppbyggingar á háhraða farneti samkvæmt A-heimildinni. Sendi félagið stofnuninni erindi þar að lútandi.

PFS gat ekki fallist á að það hefði orðið alger forsendubrestur varðandi skuldbindingargildi krafnanna, en tók undir að önnur af þeim tveimur ástæðum sem 365 miðlar ehf. vísuðu til hefðu falið í sér tilteknar forsendubreytingar sem sanngjarnt væri að taka tillit til. Með ákvörðun sinni nr. 37/2015 frá 30. desember 2015 samþykkti PFS þær breytingar á útbreiðslu- og uppbyggingarkröfum sem 365 miðlar ehf. lögðu til með tilteknum breytingum, sbr. eftirfarandi töflu:

   Útbreiðslu- og uppbyggingarkröfur

   31. des. 2016
 31. des. 2020
 31. des. 2022
 Landssvæði  %  Mb/s  %  Mb/s  %  Mb/s
 Höfuðborgarsvæðið  97  10  97 - x%  30  99,5  30
 Austurland  97  10  97 - x%  30  99,5  30
 Norðausturland  97  10  97 - x%  30  99,5  30
 Norðvesturland  97  10  97 - x%  30  99,5  30
 Suðurland  97  10  97 - x%  30  99,5  30
 Vesturland  97  10  97 - x%  30  99,5  30
 Vestfirðir  97  10  97 - x%  30  99,5  30

Samhliða breytingum á uppbyggingar- og útbreiðslukröfum voru gerðar breytingar á skilmálum tíðniheimildarinnar um dagsektir ef til vanefnda skyldi koma, þrátt fyrir þær tilslakanir sem PFS hafði fallist á að veita 365 vegna forsendubreytinga. Þannig væri heimilt að leggja á dagsektir að upphæð 100.000 kr. fyrir hvern dag frá 1. október 2016 þar til útbreiðsla farnetsþjónustuannar næði til 70% landsmanna.

Þann 30. maí 2016 barst PFS uppbyggingaráætlun 365 til samræmis við framangreindar kröfur. Samkvæmt henni var ljóst að félagið hygðist byggja upp eigið farnet á höfuðborgarsvæðinu á árunum 2016-2017, en á landsbyggðinni væri ætlunin að byggja einungis upp farnet sem næmi þeim útbreiðslukröfum sem væru umfram umfang dreifikerfis Símans hf. sem 365 miðlar ehf. hefðu aðgang að á grundvelli sýndarnetssamnings.

PFS taldi framangreint hvorki vera í samræmi við skilmála tíðniheimildarinnar né heldur forsendur og skilmála tíðniuppboðsins. Af þessum sökum fór PFS fram á það að 365 miðlar ehf. legðu fram endurskoðaða uppbyggingaráætlun.

Þann 5. júlí 2016 barst PFS uppfærð uppbyggingaráætlun, sem hafði verið leiðrétt varðandi tiltekin atriði sem PFS hafði bent á. Hins vegar höfnuðu 365 miðlar ehf. skilningi PFS á skuldbindingum félagsins um uppbyggingu og útbreiðslu á háhraða farnetsþjónustu og taldi að uppbyggingaráform þess væru í fullu samræmi við ákvæði tíðniheimildarinnar og skilmála uppboðsins.

Síðan þá er PFS ekki kunnugt um að nokkur uppbygging hafi átt sér stað á vegum 365 miðla ehf. og mælist útbreiðsla á háhraða farnetsþjónustu, sem veitt er á dreifikerfi félagsins, einungis ná til 5% landsmanna.

PFS hefur nú tekið ákvörðun nr. 19/2016 um að veiting 365 miðla ehf. á háhraða farnetsþjónustu á grundvelli sýndarnetssamnings við þriðja aðila, í þessu tilviki Símans hf., geti ekki komið staðinn fyrir uppbyggingu á dreifikerfi og nýtingu á eigin tíðni í samræmi við skilyrði í tíðniheimild A og skilmálum uppboðsins. Því sé um að ræða verulegar vanefndir af hálfu 365 miðla ehf. á því að uppfylla þær útbreiðslu- og uppbyggingarkröfur sem hvíla á félaginu. Í samræmi við skilmála í tíðniheimild og samkvæmt heimild í lögum verða því lagðar dagsektir á 365 miðla ehf. að upphæð 100.000 kr. frá og með 16. janúar nk. fyrir hvern dag sem líður án þess að útbreiðsla farnetsþjónustunnar á eigin neti hafi náð til 70% landsmanna.

Sjá ákvörðunina í heild:

Ákvörðun PFS nr. 19/2016 - Álagning dagsekta á 365 miðla ehf.

 

 

 

Til baka