Hoppa yfir valmynd

PFS samþykkir beiðni Íslandspósts um hækkun gjaldskrár fyrir bréf innan einkaréttar (0 - 50 gr.)

Túngumál EN
Heim

PFS samþykkir beiðni Íslandspósts um hækkun gjaldskrár fyrir bréf innan einkaréttar (0 - 50 gr.)

27. janúar 2017

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 1/2017 þar sem stofnunin samþykkir beiðni Íslandspósts (ÍSP) um 11% hækkun gjaldskrár fyrir bréf innan einkaréttar (0 - 50 gr.).  Eins og undanfarin ár eru það fyrst og fremst tveir þættir sem hafa hvað mest áhrif til hækkunar á gjaldskrá innan einkaréttar.  Annars vegar hefur verið mikil og stöðug fækkun bréfasendinga eins og sést á súluritinu hér fyrir neðan. Hins vegar hefur launakostnaður félagsins aukist vegna kjarasamninga.

Eftir hækkunina nú verður póstburðargjald fyrir bréf sem eru 50 gr. eða léttari eftirfarandi:

  • A póstur: hækkar úr 175 kr. í 195 kr.  
  • B póstur: hækkar úr 160 kr. í 180 kr.  
  • AM (magnpóstur): hækkar úr 135 kr. í 150 kr. 
  • BM (magnpóstur): hækkar úr 114 kr. í 126 kr. 

Áður en gjaldskrá innan einkaréttar getur tekið gildi er ÍSP skylt að fá samþykki PFS fyrir þeim einingarverðum sem fyrirtækið telur að eigi að gilda. Útgangspunktur PFS við yfirferð á erindum ÍSP er, 6. mgr., sbr. 4. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002, sem kveður á um að gjaldskrá fyrirtækisins eigi að taka mið af raunkostnaði ásamt hæfilegum hagnaði.

Sem mótvægi við þessa þróun og í þeim tilgangi að sporna við því að kostnaðargrunnur einkaréttar hækki enn frekar hefur PFS heimilað ÍSP að grípa til víðtækra hagræðingaraðgerða varðandi þá þjónustu félagsins sem skylt er að veita undir merkjum alþjónustu. Þetta sést t.d. í ákvörðun PFS nr. 16/2011, og í úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta og póstmála í máli nr. 2/2011, þar sem fjallað er um breytingar á dreifikerfi félagsins.

Auk þessa hefur ÍSP verið veitt heimild til að draga úr kostnaði við rekstur afgreiðslunets fyrirtækisins með því að loka og/eða sameina afgreiðslustaði víðs vegar á landinu í þeim tilgangi að draga úr kostnaði við rekstur afgreiðslunetsins. Nú nýlega, í kjölfarið á breytingu á reglugerð um alþjónustu nr. 364/2003, var ÍSP síðan heimilað að fækka dreifingardögum í dreifbýli, þ.e. dýrasta hluta dreifikerfisins, sbr. ákvörðun PFS nr. 34/2015.

Súlurit sem sýnir fækkun bréfa innan einkaréttar 2006 - 2016 ásamt áætlun 2017Þó að þessar aðgerðir hafi hjálpað til á undanförnum árum hafa þær hins vegar ekki dugað nema að takmörkuðu leyti til að draga úr þeirri hækkunarþörf sem árlega hefur myndast hjá ÍSP, sérstaklega vegna minnkunar á magni. Stofnunin lítur hins vegar svo á að gjaldskrá innan einkaréttar beri í dag það óhagræði sem ÍSP hefur af því að sinna alþjónustu um land allt, sbr. ákvörðun PFS nr. 17/2015 og úrskurð úrskurðarnefndar fjarskipta og póstmála í máli nr. 7/2015.

Nú er sendingarkostnaður hérlendis á bréfum sem falla innan einkaréttar með því hæsta sem gerist í Evrópu. Því verður að telja ósennilegt að þær sendingar geti staðið til lengdar undir óbreyttu alþjónustustigi ef bréfum heldur áfram að fækka og verð að hækka af þeim sökum, eins og þróunin hefur verið á undanförnum árum.

Afkoma einkaréttar hefur hins vegar verið viðunandi í skilningi laga um póstþjónustu á undanförnum árum, sbr. niðurstöður úr yfirlitum PFS yfir bókhaldslegan aðskilnað félagsins.

 

 Nánari rökstuðning fyrir niðurstöðu PFS varðandi beiðni ÍSP er að finna í ákvörðuninni sjálfri:

Ákvörðun PFS nr. 1/2017 - Samþykki hækkunar á gjaldskrá bréfa innan einkaréttar

 

 

 

 

 

Til baka