Hoppa yfir valmynd

Kallað eftir samráði um þróun sjónvarpsmiðlunar og fjarskipta

Túngumál EN
Heim
2. febrúar 2017

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) kallar hér með eftir almennu samráði um þróun sjónvarpsmiðlunar og fjarskipta hér á landi.

Samráðið er til komið vegna ágreinings sem uppi hefur verið um túlkun fjölmiðlalaga nr. 38/2011,  en samkvæmt VII kafla laganna er PFS falið eftirlitshlutverk um framkvæmd flutningsréttarreglna og annarra tengdra atriða sem varða samskipti fjölmiðlaveitu og fjarskiptafyrirtækja.

Útbreiðsla IPTV í Evrópu 2010-2014Vægi fjarskiptafyrirtækja við dreifingu sjónvarpsefnis er gríðarlega mikið hér á landi og mun meira en þekkist annars staðar í Evrópu. Ekki síst á þetta við um IPTV kerfi fjarskiptafyrirtækjanna, þ.e. sjónvarp sem dreift er með fastri nettengingu. Þetta sést vel á súluritinu hér í fréttinni sem sýnir útbreiðslu IPTV til heimila í Evrópu á árunum 2010 - 2014. Þar er útbreiðslan á Íslandi árið 2014 nærri 70%, en það land sem næst kemur er með rétt rúmlega 40% útbreiðslu. IPTV áskriftum hefur einnig fjölgað mjög hér á landi og voru tæp 98 þúsund um mitt árið 2016 sem var 14% aukning frá á árinu 2014.

Þegar horft er til stöðu og þróunar þessara mála telur stofnunin þurfa að líta til tveggja meginþátta.

Annars vegar þess að IPTV kerfi eru lokuð dreifikerfi þar sem hægt er að takmarka aðgang þeirra sem ekki eru með aðgang að viðkomandi kerfi. Fyrir neytendur gæti þetta t.d. þýtt að til þess að fá aðgang að ákveðnu sjónvarpsefni þurfi viðkomandi að velja viðkomandi fjarskiptanet eða vera áskrifandi að fleiri en einu neti til að fá aðgang að því efni sem efnisveiturnar bjóða upp á. Einnig verður að hafa í huga að valkostir neytenda varðandi aðgengi geta verið mismunandi eftir búsetu.

Hinn þáttur málsins snýr að markaðsstöðu fjarskiptafyrirtækja.  Sú staða gæti komið upp hér á landi að tvö stærstu fjarskiptafyrirtækin starfræktu bæði lóðrétt samþættar og mjög öflugar fjölmiðlaveitur. Með lóðréttri samþættingu er átt við að sama félagið veiti fleiri en einn þátt þjónustu sem eina heild, t.d. að bjóða netþjónustu, Internetaðgang, talsímaþjónustu og sjónvarpsþjónustu. Smærri fjarskiptafyrirtæki gætu átt erfitt með að leika eftir slíka lóðrétta samþættingu fjarskipta og myndmiðlunar. Ef aðgangur þessara smærri aðila að línulegri og/eða ólínulegri efnismiðlun stóru fyrirtækjanna tveggja er takmarkaður er hætt við því að samkeppnisstaða minni fyrirtækjanna á fjarskiptamarkaði muni versna.

Í samráðsskjalinu hér fyrir neðan er farið yfir þann ágreining sem uppi hefur verið um flutningsréttarákvæði fjölmiðlalaga, stöðu IPTV hérlendis og settar fram nokkrar spurningar sem óskað er eftir svörum við.

Frestur til aðskila inn umsögnum er til og með 16. febrúar nk. 

Nánari upplýsingar veitir Óskar Hafliði Ragnarsson (netfang: oskarh(hjá)pfs.is). PFS mun birta opinberlega allar athugasemdir sem berast, nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og mun þá stofnunin leggja mat á slíka beiðni.

Samráðsskjalið má nálgast á pdf formi á hlekknum hér fyrir neðan:

Samráð um þróun sjónvarpsmiðlunar og fjarskipta

 

Til baka