Hoppa yfir valmynd

Samráð um helstu breytingar á drögum að skilmálum uppboðs á tíðniheimildum á 700, 800, 2100 og 2600 MHz tíðnisviðum.

Tungumál EN
Heim
23. mars 2017

Þann 11. október 2016 birti Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) drög að skilmálum fyrirhugaðs uppboðs á nýtingu tíðna á 700 MHz, 2100 MHz og 2600 MHz tíðnisviðunum og óskaði eftir umsögnum um drögin. 

Umsagnir bárust frá 6 aðilum og hefur PFS tekið þær til skoðunar og gert breytingar á drögunum í samræmi við þær athugasemdir sem stofnunin taldi rétt að taka til greina.

Meðal þess sem kom fram í athugasemdum var að fjarskiptafyrirtæki töldu rétt að bíða eftir að afdrif ónotaðra tíðniheimilda á 800 MHz tíðnisviðinu skýrðust. Í lok febrúar var skilað 2x10 MHz tíðniheimild á 800 MHz tíðnisviðinu. PFS hefur í hyggju að bjóða upp þessar tíðnir ásamt þeim tíðnisviðum sem áður var boðað að yrðu boðin upp. PFS hyggst jafnframt fresta uppboði á einni af þremur tíðniheimildum á 700 MHz tíðnisviðinu vegna ábendinga um að það gæti verið þörf á þeim tíðnum fyrir neyðarfjarskipti.

Í samráðsskjali þessu er gerð grein fyrir helstu breytingum sem orðið hafa á drögum að uppboðsskilmálum. Áhugasömum er gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við þessar breytingar. Mælst er til þess að umsagnir verði einskorðaðar við breytingar á drögunum, en ekki verði endurtekin umfjöllun um þau atriði sem fjallað var um í fyrra samráði um skilmálana. Óskað er eftir að efnisumfjöllun umsagna sé í sömu röð og í skjali þessu. Óþarft er að fjalla um kafla sem umsagnaraðili hefur ekki athugasemdir við. Æskilegt er að umsagnaraðilar sem telja að gera ætti breytingar á skilmálum, setji fram tillögur um breytt orðalag.

PFS mun birta umsagnir umsagnaraðila í heild sinni, en verða við rökstuddum óskum aðila um trúnað tiltekinna upplýsinga, sem rétt þykir að leynt fari. Samráðinu mun síðan ljúka með birtingu PFS á samantekt umsagna og afstöðu stofnunarinnar til sjónarmiða hagsmunaaðila og að því loknu er áformað að auglýsa uppboð með 4 vikna fyrirvara.

Frestur til að skila athugasemdum við neðan greindar breytingar á drögum að uppboðsskilmálum er til 5. apríl nk. Umsagnir og athugasemdir skulu sendar Sigurjóni Ingvasyni á netfangið sigurjon(hjá)pfs.is.

Sjá nánar í skjölunum hér fyrir neðan:

Samráðsskjal 2. umferð

Niðurstöður úr fyrra samráði

Uppfærð drög að uppboðsskilmálum - með breytingasögu

Umsagnir aðila úr fyrra samráði:

Umsögn IMC

Umsögn Innanríkisráðuneytisins

Umsögn Neyðarlínunnar

Umsögn Nova

Umsögn Símans

Umsögn Vodafone

 

Til baka